Greiðsluáætlanir fyrir árið 2020 og val á skattþrepum

22. janúar 2020

Greiðsluáætlanir fyrir árið 2020 eru aðgengilegar á Mínum síðum. Lífeyrisþegar eru hvattir til að skoða tekjuáætlanir sínar fyrir árið vel og breyta þeim ef ástæða þykir til. 

Þá er vakin athygli á að skattareglur hafa breyst nokkuð á milli áranna 2019 og 2020 og verða þrjú skattþrep í gildi á árinu 2020:

  • Skattþrep 1. - 35.04% af tekjum 0 - 336.916 kr.
  • Skattþrep 2. - 37,19% af tekjum 336.917 - 945.873 kr.
  • Skattþrep 3. - 46,24% af tekjum yfir 945.873

Til að tryggja það eins og kostur er, lífeyrisþegum til hagsbóta, að ekki verði dregin of lág staðgreiðsla af greiðslum frá TR hefur verið ákveðið að velja skattþrep fyrir lífeyrisþega að teknu tilliti til tekna þeirra samkvæmt tekjuáætlun. Lífeyrisþegar geta svo ávallt valið annað skattþrep en TR leggur til með því að senda erindi til stofnunarinnar.

Dæmi 1 – Tekjur frá TR í skattþrepi 1

Tekjur frá TR: 320.000 kr.

Aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur samkvæmt tekjuáætlun: 0 kr.

Sjálfvalið skattþrep hjá TR: Skattþrep 1. - 35,04% staðgreiðsla

Skráð nýting á persónuafslætti hjá TR: 100%

Reiknuð staðgreiðsla hjá TR: 320.000*35,04% - 54.628 = 57.500 kr.

Dæmi 2 – Tekjur frá TR í skattþrepum 1 og 2

Lífeyrisréttindi frá TR: 215.000 kr.

Aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur samkvæmt tekjuáætlun: 200.000 kr.

Sjálfvalið skattþrep hjá TR:

  • Skattþrep 1. - 35,04% staðgreiðsla af 136.916 kr. (336.916 - 200.000).
  • Skattþrep 2. - 37,19% staðgreiðsla af 78.084 kr. (215.000 - 136.916).

Skráð nýting á persónuafslætti hjá TR: 50%

Reiknuð staðgreiðsla hjá TR: (136.916*35,04%) + (78.084*37,19%) – (54.628*50%) = 49.701 kr.

Dæmi 3 – Tekjur TR í skattþrepi 2

Lífeyrisréttindi frá TR: 100.000 kr.

Aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur samkvæmt tekjuáætlun: 336.917 kr.

Sjálfvalið skattþrep hjá TR: Skattþrep 2. - 37,19% staðgreiðsla

Skráð nýting á persónuafslætti hjá TR: 0%

Reiknuð staðgreiðsla hjá TR: 100.000*37,19% = 37.190 kr.

Nánari upplýsingar um skattabreytingarnar er að finna á vef stjórnarráðsins hér og á vef Skattsins hér.