Jóla- og áramótapistill forstjóra TR

23. desember 2019

Fyrst ber að nefna flutninga TR í nýtt húsnæði í Kópavogi og allt það sem því tengdist. Í raun urðu stakkaskipti á allri starfseminni samhliða flutningnum.

Miðlægur tölvubúnaður var fluttur til Veðurstofu Íslands í  janúar. Það var endapunktur á viðamiklu verkefni sem hafði staðið yfir vel á annað ár.  Megintilgangurinn var að tryggja betur öryggi upplýsinga í kjölfar aukinna rafrænnar vinnslu og samskipta stofnunarinnar undanfarin ár.  Starfsemin öll var síðan flutt og opnað í Hlíðasmáranum 1. apríl. Flutningsferlið var langt og margslungið. Nýja húsnæðið var sniðið að þörfum starfseminnar og pappírslaust verklag var tekið upp á nýjum stað. Í öllu ferlinu völdum við bestu og hagkvæmustu lausnirnar fyrir starfsemina og aðhalds gætt í hvívetna. Þetta var samstarfsverkefni alls starfsfólks sem tókst langt umfram væntingar.

Samhliða flutningnum höfum við hjá TR tekist á við óvanalega umfangsmikil og flókin verkefni á árinu. Sérstaða ársins voru afturvirkar breytingar á réttindum. Ákvörðun var tekin um að breyta framkvæmd á búsetuútreikningum afturvirkt í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis, afturvirkar breytingar voru gerðar á réttindum til ellilífeyris í kjölfar dóms Landsréttar vegna mistaka við lagasetningu og Alþingi samþykkti afturvirkar breytingar innan ársins á réttindum öryrkja.

Ljóst er að vanda þarf betur til verka við ákvarðanatöku, taka þann tíma sem þarf til lagabreytinga og löngu er orðið tímabært að fjárfesta í þróun hermilíkana til þess að meta áhrif breytinga áður en þær taka gildi í réttindakerfunum.  Því ef ekki er að gáð getur réttur þeirra sem lökust kjörin hafa rýrnað þó markmiðið hafi verið að bæta hag þeirra eða kjör þeirra sem búa við bestan kostinn í samfélaginu vænkast þó það hafi ekki staðið til. Hvorttveggja gerðist í ár.

Sífellt þarf að bregðast við breyttum kröfum, lagaboðum og reyna jafnframt að bæta þjónustuna við ört vaxandi hóp viðskiptavina Tryggingastofnunar. Okkar framtíðarsýn er að vera framsækinn vinnustaður sem sýnir fagmennsku í starfsháttum og veitir framúrskarandi þjónustu. Að því munum við vinna áfram að af alúð og metnaði og væntum þess að fá þann stuðning sem þarf til þess að geta staðið undir væntingum landsmanna til starfseminnar.

Með ósk um gleðilega hátíð og farsælt nýtt ár.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri