Leiðréttar greiðslur ellilífeyris fyrir janúar og febrúar 2017

03. október 2019

Tryggingastofnun hefur nú leiðrétt greiðslur ellilífeyris fyrir janúar og febrúar árið 2017 í samræmi við niðurstöðu dóms Landsréttar í máli nr. 466/2018 til þeirra einstaklinga sem rétt áttu á leiðréttingu. Greitt var til tæplega 29.000 einstaklinga, alls um 5,5 milljarðar króna.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins var ekki heimilt að láta greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafa áhrif á ellilífeyri til lækkunar í janúar og febrúar 2017.

Á mínum síðum er að finna skjöl með frekari upplýsingum til þeirra sem málið varðar.

Greiðslur verða einnig leiðréttar til dánarbúa og verður bréf sent til þeirra á næstu vikum. Bent er á að fullnægjandi umboð þarf að liggja fyrir hjá Tryggingastofnun til að hægt sé að greiða leiðrétt réttindi til dánarbúa eða erfingja þeirra. Umboðseyðublað er hægt að senda undirritað af öllum erfingjum dánarbús á netfangið tr@tr.is.