Útreikningur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu breytist afturvirkt frá 1. janúar 2019 vegna lagabreytingar. Tekjuviðmið breytast þannig að 65% af skattskyldum tekjum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hafa nú áhrif á útreikninginn í stað 100% áður. Aldurstengd örorkuuppbót hefur nú 50% vægi í stað 100% áður. Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, aðrar en aldurstengd örorkuuppbót, hafa áfram 100% vægi.
Þeir sem eiga rétt á hækkun greiðslna fá greitt fyrir fyrstu átta mánuði ársins í síðustu viku ágúst.
Nánari upplýsingar um útreikning og breyttar greiðslur verða birtar á Mínum síðum í lok ágúst.
Útreikningur atvinnutekna
Lagabreytingin heimilar einnig að telja atvinnutekjur bótaþega einungis til tekna í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Heimildin gildir frá 1. janúar 2019, en kemur til framkvæmda á árinu 2020 við uppgjör greiðslna vegna ársins 2019. Nánari upplýsingar verða veittar síðar.
Sjá nánar á vef stjórnartíðinda