Útreikningur lífeyrisréttinda og endurreikningur

25. júní 2019

Tryggingastofnun vill benda á að samkvæmt lögum um almannatryggingar hafa tekjur áhrif á lífeyrisréttindi til lækkunar. Mismunandi reglur gilda um lækkunaráhrif tekna annars vegar á ellilífeyri og hins vegar á örorkulífeyri.

Hjá örorkulífeyrisþegum falla allar greiðslur frá stofnuninni á árinu 2019 niður við tekjur sem eru 400.526 kr. á mánuði eða meira. Þegar tekjur fara yfir viðmiðunarmörk falla allar greiðslur niður. 

Greiðslur lífeyris byggja á  tekjuáætlun sem lífeyrisþegi ber ábyrgð á að skila. Til  grundvallar útreikningi mánaðarlegra greiðslna skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum ársins.

Þegar skattframtal viðkomandi árs liggur fyrir ber Tryggingastofnun að endurreikna tekjutengd réttindi á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali.  Ef niðurstaða endurreiknings er að um ofgreiðslu hafi verið að ræða ber stofnuninni að innheimta ofgreiddan lífeyri. Að sama skapi ef um vangreiðslu hefur verið að ræða er  lífeyrisþega greiddur mismunurinn. Mikilvægt er því að vanda gerð tekjuáætlana og tilkynna um allar breytingar á tekjum eins fljótt og mögulegt er. Hægt er að uppfæra tekjuáætlun á Mínum síðum.

Rétt er að vekja athygli á því að heimilt er að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar til sjálfstæðrar nefndar, úrskurðarnefndar velferðarmála sem endurskoðar ákvarðanir stofnunarinnar.

Lög um almannatryggingar

Reglugerð um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vistunarframlags