Tryggingastofnun samnýtir tölvusal með Veðurstofu Íslands

03. janúar 2019

Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að tryggja bestu mögulegu þjónustu við ört vaxandi hóp viðskiptavina stofnunarinnar m.a. með rafrænum samskiptum. „Í nýju húsnæði verður einnig hægt að taka á móti viðskiptavinum og faghópum í vel búinni fundaraðstöðu og þjónustuveri“, segir Sigríður Lillý Baldursdóttir forstjóri Tryggingastofnunar.   

Tryggingastofnun vinnur með viðkvæm persónugreinanleg gögn og rekur umfangsmikil upplýsingakerfi, en viðskiptavinir stofnunarinnar eru rúmlega 73 þúsund og útgreiðslur eru ríflega 120 milljarðar kr. á ári.

Gera þarf miklar kröfur til upplýsingaöryggis gagnanna og því var samið við Veðurstofu Íslands um aðstöðu fyrir miðlægan tölvubúnað stofnunarinnar í tölvusal Veðurstofunnar. Tölvusalur Veðurstofunnar er með vottun samkvæmt  ISO27001 upplýsingaöryggisstaðlinum og uppfyllir því þær kröfur sem gerðar eru um upplýsingaöryggi í rekstri á miðlægum tölvubúnaði Tryggingastofnunar.  Starfsmenn Tryggingastofnunar munu eftir sem áður vinna með vélbúnaðinn og hafa einir aðgang að gögnunum sem þar verða vistuð. 

Samningur Tryggingastofnunar við Veðurstofuna styður jafnframt við áherslur hjá hinu opinbera um aukinn samrekstur í upplýsingatæknirekstri stofnana.

Vélbúnaður Tryggingastofnunar verður fluttur til Veðurstofunnar um miðjan janúar, en reiknað er með að Tryggingastofnun flytji starfsemi sína og opni þjónustuver sitt í Hlíðasmára undir lok febrúarmánaðar.

frétt tölvukerfi.jpg