Evrópuráðstefna hefur jákvæð áhrif á umræðu

06. júlí 2018

Evrópuráðstefna almannatryggingastofnana hefur haft áhrif á umræðuna um kynbundin mun á sviði almannatrygginga en Hans-Horst, framkvæmdastjóri ISSA vakti nýlega athygli á málinu á ráðstefnu hjá ILO (Alþjóðavinnumálastofnun Sameinuðu þjóðanna). 
Evrópuráðstefna almannatryggingastofnana um réttindi til lífeyris og almannatrygginga út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum var haldin í Reykjavík dagana 31.maí til 1. Júní.

Ráðstefnan var haldin á vegum ISSA, alþjóðasamtaka almannatryggingastofnana (International Social Security Association) í samstarfi við Tryggingastofnun og jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins.

Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um kynbundinn mun á áunnum lífeyrisréttindum og greiðslum og fjallað um orsakir þess að konur njóta minni réttinda og lægri greiðslna. Farið var yfir hugsanlegar lausnir á vandanum til framtíðar og aðferðir til úrbóta í formi samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og starfsemi sem lýtur að almannatryggingum. Jafnframt var rætt um hvaða áhrif fjórða iðnbyltingin getur haft á lífeyrisréttindi og almannatryggingar. Meðal fyrirlesara var Hans-Horst Konkolewsky framkvæmdastjóri ISSA, Monika Queisser, yfirmaður félags- og atvinnumála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), og Miguel de la Corte Rodriguez, sérfræðingur hjá jafnréttisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB),  auk sérfræðinga frá fagstofnunum almannatrygginga á Norðurlöndunum, Þýskalandi, frá velferðarráðuneytinu og Háskóla Íslands.

Ráðstefnan hafði jákvæð áhrif en mikilvægt skref var tekið þegar kemur að áskorunum varðandi kynbundin mun á sviði almannatrygginga. Í framtíðinni mun ISSA m.a. kynna kynjasjónarmið í leiðbeiningum sínum með áherslu á kyn og jafnrétti í formi samþættingar kynja og –jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og jafnframt huga að slíku við starfsemi stofnana almannatrygginga.  Þá vakti framkvæmdastjóri ISSA, Hans-Horst athygli á málefninu nýlega á ráðstefnu hjá ILO (Alþjóðavinnumálastofnun Sameinuðu þjóðanna). 

Útdrátt frá ráðstefnunni má nálgast hér