Greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

09. júlí 2018

Umönnunargreiðslur

Umönnunargreiðslur er fjárhagsleg aðstoð til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi. Um er að ræða félagslega aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra. Réttur til umönnunargreiðslna getur varað í átján ár, frá fæðingu barns og til 18 ára aldurs. Greiðslur eru skattfrjálsar og geta að hámarki orðið 179.465 kr. á mánuði.

Foreldragreiðslur

Foreldragreiðslur eru greiddar foreldrum langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem geta af þeim sökum ekki stundað vinnu eða nám.  Um er að ræða launatengdar foreldragreiðslur, grunngreiðslur eða greiðslur til foreldra í námi. Foreldragreiðslur eru skattskyldar.

Skilyrði er að foreldri hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs, til launa vegna veikinda barns frá atvinnurekanda og úr sjúkrasjóði stéttarfélags.

Foreldragreiðslur eru veittar skv. lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna nr. 22/2006, með síðari breytingum. 

Grunngreiðslur

Grunngreiðslur eru greiðslur til foreldra sem hvorki geta sinnt námi né vinnu. Réttur til grunngreiðslna getur varað til 18 ára aldurs.  Fjárhæð greiðslna er nú 225.439 kr. á mánuði auk barnagreiðslna með hverju barni undir 18 ára aldri, 33.186 kr. á mánuði.

Launatengdar foreldragreiðslur

Foreldrar sem leggja niður störf vegna veikinda eða fötlunar barna sinna geta átt rétt á launatengdum greiðslum, í allt að 6 mánuði.

Meginskilyrði fyrir launatengdum foreldragreiðslum:

Að foreldri hafi verið samfellt í a.m.k. 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði og lagt niður störf lengur en 14 daga samtals vegna veikinda eða fötlunar barns. Starfshlutfall þarf að hafa verið a.m.k. 25% í hverjum mánuði.

Að barn hafi greinst eftir 1. október 2007 með sjúkdóm/fötlun  skv. 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 með síðari breytingum. Greinist barn aftur, eftir 1. okt. 2007, með alvarlegan eða langvinnan sjúkdóm eftir að hafa náð bata geta foreldrar átt rétt á launatengdum greiðslum að nýju.

Launatengdar greiðslur nema 80% af launum en hámark greiðslna er nú 803.724 kr. á mánuði.