Tryggingastofnun
Fréttir

23.6.2017

Frávik við endurreikning eðlileg

TR tilkynnti á dögunum um niðurstöðu endurreiknings greiðslna ársins 2016. Til að tryggja að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur, sem eru í samræmi við raunverulegar tekjur þeirra, miðast endurreikningurinn við tekjuupplýsingar í staðfestum skattframtölum. Endurreikningurinn er borinn saman við það sem greitt hafði verið á árinu og niðurstaðan leiðir svo í ljós hvort lífeyrisþegi fékk rétt greitt, vangreitt eða umfram rétt.

Í niðurstöðum endurreiknings greiðslna ársins 2016 kom fram að um 44% lífeyrisþega fengu greitt umfram rétt á því ári og 43% fengu vangreitt. Ekki er óeðlilegt að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning en tiltölulega liltar breytingar á tekjum geta orsakað það. Frávikin árið 2016 voru innan við 100 þúsund krónur í tilfelli um 75% lífeyrisþega.

TR hefur ekki sambærilegt tæki og staðgreiðsluskrá RSK til að hafa eftirlit með óstaðgreiðsluskyldum tekjum eins og fjármagnstekjum en þær eru í flestum tilvikum orsakavaldur hárra greiðslna umfram rétt. Tekjuhæstu lífeyrisþegarnir eru í flestum tilfellum þeir sem fá hæstu greiðslurnar umfram rétt. Þá hefur hluti þeirra sem fengu of lágar greiðslur óskað eftir því að fá greitt einu sinni á ári á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali.

Góður árangur hefur náðst undanfarin ár við að halda frávikum við endurreikning í lágmarki. TR hefur eflt samtímaeftirlit sitt, sem felst m.a. í því að tekjuáætlanir lífeyrisþega eru leiðréttar til samræmis við tekjur sem fram koma í staðgreiðsluskrá RSK. Að auki er brýnt fyrir lífeyrisþegum að fylgjast vel með breytingum á tekjum og því hvort þörf sé á að breyta tekjuáætlun hjá TR. Þá hefur TR átt mikið og gott samstarf við hagsmunasamtök lífeyrisþega undanfarin ár og haldið reglulega samráðsfundi með þessum samtökum.

Til baka