Tryggingastofnun

Áætlanir og endurreikningur

Tryggingastofnun greiðir út lífeyri til örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega, ellilífeyrisþega og endurhæfingarlífeyrisþega. Upphæð lífeyrisgreiðslna fer eftir aðstæðum og tekjum hvers og eins.

Lífeyrisgreiðslur eru gerðar upp einu sinni á ári í endurreikningi.

Tekjuáætlun

Skattskyldar tekjur lífeyrisþega ráða fjárhæð lífeyris og tengdra greiðslna. Þegar sótt er um lífeyri þarf að skila tekjuáætlun, sem er áætlun umsækjanda um hversu háar tekjur hann muni hafa á árinu. Á grundvelli þessarar áætlunar eru greiðslur ársins reiknaðar. Mikilvægt er að vanda þessa áætlun vegna þess að greiðslur hvers árs eru gerðar upp eftir á þegar endanlegar upplýsingar um tekjur ársins liggja fyrir.

Með vandaðri tekjuáætlun er hægt að koma í veg fyrir of- eða vangreiðslur sem þarf að leiðrétta síðar, með fyrirhöfn og óþægindum sem óhjákvæmilega fylgja. Röng eða óvönduð tekjuáætlun getur haft þau áhrif að lífeyrisþegi þurfi að endurgreiða mótteknar greiðslur. Lífeyrisþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tekjuáætlun þeirra sé sem réttust.

Hægt er að leiðrétta tekjuáætlanir hvenær sem er á árinu rafrænt á tr.is og Mínar síður eða með því að fylla út nýtt eyðublað og skila til Tryggingastofnunar.

Greiðsluáætlun

Í upphafi árs berst lífeyrisþegum greiðsluáætlun fyrir árið. Áætlunin sýnir lífeyrisgreiðslur sundurliðaðar eftir greiðslutegundum og mánuðum. Mikilvægt er að geyma áætlunina.

Lífeyrisþegar fá senda nýja áætlun heim ef forsendur breytast. Sömu upplýsingar eru aðgengilegar rafrænt á tr.is og á Mínum síðum. Mánaðarlegir greiðsluseðlar eru ekki lengur sendir út en hægt er að sækja þá á Mínum síðum. Lífeyrisþegar geta einnig skoðað tekjur sínar í staðgreiðsluskrá RSK (á vefnum www.skattur.is) til að tekjuáætlun sé sem réttust.

Endurreikningur

Eins og fram hefur komið er lífeyrir reiknaður út og greiddur á grundvelli tekjuáætlana. Að lokinni álagningu skattayfirvalda í ágúst eru bornar saman greiðslur sem lífeyrisþegar fengu við tekjur á staðfestu skattframtali. Komi í ljós að of lágar bætur hafi verið greiddar greiðir Tryggingastofnun viðkomandi það sem upp á vantar. Komi hins vegar í ljós að of háar bætur hafi verið greiddar myndast krafa sem Tryggingastofnun innheimtir. Tryggingastofnun er heimilt að draga ofgreiðsluna af mánaðarlegum greiðslum.

Fyrir þá sem vilja er hægt er að óska eftir að fá réttindi greidd einu sinni á ári eftir að uppgjör hefur farið fram. Með því er hægt að tryggja rétta niðurstöðu þar sem réttindin eru reiknuð út frá rauntekjum úr skattframtali. Ósk um þetta fyrirkomulag þarf að vera skrifleg.

Innheimta

Meginreglan við innheimtu er að ofgreiðsla sé greidd upp á 12 mánuðum frá því að krafa stofnast. Að jafnaði er dregið af mánaðarlegum greiðslum en heimilt er að draga allt að 20% af greiðslum, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr. Ef ekki er hægt að koma við nægjanlegum frádrætti af greiðslum bjóðast aðrir möguleikar til endurgreiðslu eins og greiðslukortasamningar eða mánaðarlegir greiðsluseðlar í heimabanka. Mögulegt er að óska eftir greiðsludreifingu til lengri tíma en 12 mánaða og við mat á slíkri beiðni er tekið mið af heildartekjum, eignastöðu og öðrum aðstæðum.

Upplýsingaskylda

Sú skylda hvílir á umsækjendum að veita Tryggingastofnun réttar og nauðsynlegar upplýsingar um persónulegar aðstæður til þess að hægt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna, fjárhæð og endurskoðun þeirra. Ef nauðsynlegar upplýsingar eru ekki veittar má fresta greiðslum þar til fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Upplýsingaskyldan tekur til tekna og annarra atriða, svo sem heimilisaðstæðna, flutnings úr landi og breytinga á hjúskaparstöðu. Tilkynna þarf  allar slíkar breytingar til Tryggingastofnunar.

Síða yfirfarin/ breytt 24.04.2017

Til baka

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica