Hvernig eru umönnunargreiðslur metnar?

Þegar umsókn, læknisvottorð og önnur gögn eru kominn fer ferli í gang sem kallast umönnunarmat. Á einföldu máli munu starfsmenn TR í fyrsta lagi meta alvarleika veikinda/fötlunar, í öðru lagi meðferð/þjálfun/umönnun og í þriðja lagi meta þeir staðfestan útlagðan kostnað vegna meðferðar barns. Það er ákveðin lagagrein og reglugerð sem segir hvernig starfsmenn eigi að skoða þessa þrjá þætti og meta.

Niðurstaðan af umönnunarmatinu birtist í fimm flokkum.

Í fyrsta flokk eru alvarlega fötluð og veik börn en í 5. flokk eru börn með hegðunarerfiðleika, sýkingar og vægari veikindi/fötlun. Flokkunin byggir á eftirfarandi greiningum:

Fl. 1 - Börn, sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar, fjölfötlunar, eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.

Fl. 2 - Börn, sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi t.d. vegna alvarlegrar eða miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar hjólastóls, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar táknmáls/varalesturs, og blindu.

Fl. 3 - Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

Fl. 4 - Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

Fl. 5 - Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga. Innan hvers flokks eru síðan greiðslustig, sem eru ákveðnar prósentur.

Greiðslustigin byggjast á því hversu mikil umönnun er fyrir hendi og hversu mikinn útlagðan kostnað foreldrar hafa staðfest (leggja fram afrit af reikningum vegna útlagðs kostnaðar vegna meðferðar barnsins).

Lesa nánar um umönnunarflokka og upphæðir