Hvað er umönnunarkort?

Umönnunarkort er ákveðið afsláttarkort af læknis og lyfjakostnaði. Foreldrar sækja gjarnan um þetta kort til að fá ýmis lyf ódýrari. Bent er á að sum lyf, t.d. sýklalyf, lækka ekki í verði þótt foreldrar hafi umönnunarkort. Athugið einnig að í sumum tilvikum geta foreldrar bæði þurft að sækja um umönnunarkort og læknir að sækja um lyfjaskírteini til að lyf fáist niðurgreidd.

Sótt er um umönnunarkort og umönnunargreiðslur á sama eyðublaðinu. Það eru síðan starfsmenn TR sem úrskurða hvort veittar eru umönnunargreiðslur og umönnunarkort eða einungis umönnunarkort. Hægt er að láta reyna á rétt sinn til umönnunarkorts með því að senda inn umsókn (umsókn um fjárhagslega aðstoð til framfærenda fatlaðra/veikra barna) og biðja lækninn (sérfræðing eða heimilislækni) að senda TR læknisvottorð.

Gildistími umönnunarkortsins getur verið frá fæðingu ef um meðfæddan sjúkdóm eða fötlun er að ræða. Að öðrum kosti er miðað við greiningu og nær gildistíminn allt að 18 ára aldri. Í undantekningum er hægt að lengja gildistíma til 20 ára aldurs vegna barna í foreldrahúsum með alvarlega og langvarandi sjúkdóma eða alvarlega fjölfötlun.