Endurreikningur – tekjuforsendur

Hvað ef tekjur á skattframtali tilheyra öðrum árum?

Við endurreikning eru tekjur samkvæmt skattframtali viðkomandi árs notaðar. Ef tekjurnar sem þar koma fram tilheyra öðrum árum er hægt að óska eftir tilfærslu tekna á milli ára og endurupptöku skattframtals hjá RSK.

Ekki er öruggt að tilfærsla tekna á milli ára hafi í för með sér hærri lífeyrisréttindi frá TR og það getur jafnvel leitt til lægri réttinda. Ef vafi leikur á um það er hægt að hafa samband við TR til að fá úr því skorið. Senda þarf gögn sem sýna fram á hvaða árum tekjur tilheyra.

Ef óskað er eftir endurupptöku skattframtals hjá RSK þarf að senda TR staðfestingu á að það hafi verið gert svo hægt sé að fresta innheimtu skulda.

Hafa þarf í huga að tilfærsla tekna á milli ára getur haft í för með sér breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum og vaxta- og barnabótum hjá RSK.

Má TR nota fjármagnstekjur maka til lækkunar á lífeyrisréttindum?

Fjármagnstekjur teljast sameiginlegar tekjur hjóna og sambúðarfólks. TR er skylt að nota þær tekjur til útreiknings á lífeyrisréttindum. Helmingur fjármagnstekna hjóna og sambúðarfólks hefur áhrif á útreikning hjá hvoru fyrir sig.

Undantekning gildir ef óvígð sambúð hefur varað styttra en eitt ár og aðilar eiga ekki barn saman. Þá er hægt að óska eftir ársaðlögun vegna fjármagnstekna.

Við hjónin skildum á árinu en fjármagnstekjur fyrrverandi maka voru notaðar til lækkunar á lífeyrisréttindum eftir skilnaðinn. Hvað er hægt að gera?

Þegar hjúskap eða sambúð er slitið er heimilt að undanskilja fjármagnstekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist.

Ef fjármagnstekjur fyrrverandi maka eftir skilnað voru notaðar til lækkunar á réttindum við endurreikning þarf að andmæla.

Tekjur sem komu til fyrir töku lífeyris, eiga þær nokkuð að koma til lækkunar greiðslna?

Tekjur sem komu til fyrir töku lífeyris koma almennt ekki til lækkunar á lífeyrisréttindum.

Hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum teljast tekjur komnar til fyrir töku lífeyris ef lengra en tvö ár líða frá lokum síðasta greiðslutímabils og fram að nýju tímabili.

Staðgreiðsluskyldar tekjur: Byggt er á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu er litið til tekna þeirra mánaða sem lífeyrisréttur var fyrir hendi í.

Aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar: Almenna reglan er sú að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur skulu hafa áhrif á endurreikning lífeyrisréttinda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur var fyrir hendi í. 

Hafa styrkir eins og t.d. styrkur til tölvukaupa áhrif á lífeyrisréttindi? 

Almennt hafa greiddir styrkir áhrif á lífeyrisréttindi til lækkunar.

Ef heimilt er að skrá kostnað á móti styrk á skattframtali lækkar það vægi styrksins á lífeyrisréttindi um sem nemur kostnaðinum. Ef vafi leikur á um heimild til að færa kostnað á móti styrkjum á skattframtali er rétt að leita aðstoðar hjá RSK.

Koma greiðslur frá tryggingafélögum til lækkunar á lífeyrisréttindum?

Skattskyldar greiðslur frá tryggingafélögum koma til lækkunar á lífeyrisréttindum.

Hvernig eru erlendar tekjur á skattframtali meðhöndlaðar?

Erlendar tekjur koma ósundurliðaðar á skattframtölum til TR og því getur stofnunin ekki ákvarðað réttar greiðslur lífeyrisþega sem þær tekjur hafa án aðkomu þeirra sjálfra.

Við fyrsta endurreikning lífeyrisþega þar sem fram koma erlendar tekjur á skattframtali er kallað eftir upplýsingum og gögnum um eðli þeirra tekna, þ.e. hvort þær teljist til lífeyrissjóðsgreiðslna, grunnlífeyris eða atvinnutekna. Ef gögn berast um eðli teknanna eru þær tekjuforsendur notaðar við útreikning greiðslna. Ef engin gögn berast teljast tekjurnar til annarra tekna og hafa því hærra vægi gagnvart lífeyrisréttindum en þær tekjur sem nefndar eru hér að framan.

Hvernig er komið í veg fyrir að vísitöluhækkun lífeyrissjóðstekna hafi áhrif á lífeyrisréttindi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega?

Við endurreikning réttinda ársins 2016 var framkvæmdur samanburður á útreikningi tekjutryggingar og heimilisuppbótar hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum samkvæmt þeim reglum sem giltu á árinu 2016 annars vegar og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 17,1 % hækkunar og að teknu tilliti til sérstaks frítekjumarks. Sá útreikningur var valinn sem hagstæðari er fyrir lífeyrisþega.

Samanburðarútreikningur á að koma í veg fyrir víxlverkunaráhrif á milli lífeyrisréttinda frá TR og lífeyrissjóðstekna frá lífeyrissjóðum. Vísitöluhækkanir hjá lífeyrissjóðum hafa ekki áhrif til lækkunar á réttindi frá TR og öfugt.

Ég var með lágar tekjur aukalega en fæ háa skuld úr uppgjöri, hver er helsta skýringin á því?

Líklegt er að það tengist sérstakri uppbót til framfærslu. Engin frítekjumörk gilda um þær greiðslur og allar tekjur hafa áhrif á útreikning óháð tegund. Sérstöku uppbótinni er ætlað að tryggja ákveðna lágmarks framfærslu þeirra sem eiga lífeyrisrétt hjá TR.

Dæmi 1: Ef lífeyrisþegi tekur út séreignasparnað að fjárhæð 100.000 kr. þá lækkar það sérstöku uppbótina um 100.000 kr.

Dæmi 2: Ef lífeyrisþegi fær dagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags að fjárhæð 50.000 kr. þá lækkar það sérstöku uppbótina um 50.000 kr.

Einnig er mögulegt að tekjur fari yfir þau mörk sem heimilt er að hafa til að fá greiddan grunnlífeyri sem veldur því að tengd réttindi eins og tekjutrygging og heimilisuppbót falla niður.

Ég leysti út fjármagnstekjur í einu lagi á uppgjörsári sem hafði þau áhrif að lífeyrisréttindi mín lækkuðu, er eitthvað hægt að gera við því?

TR er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum hans sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.

Skoða þarf vel hvort það borgi sig að dreifa fjármagnstekjum fram í tímann en dreifingin orsakar í mörgum tilvikum lægri lífeyrisrétt til framtíðar. Það getur hins vegar reynst erfitt að endurgreiða háa skuld úr uppgjöri sem myndast vegna eingreiðslu fjármagnstekna og því þarf að vega og meta kosti þess að dreifa fjármagnstekjunum með hliðsjón af því.

Við mat á því hvort það borgi sig að dreifa fjármagnstekjum er hægt að styðjast við reiknivél lífeyris  eða með því að hafa samband við TR.

Dreifing getur ekki náð yfir lengra tímabil en sem nemur gildistíma örorkumats hjá örorkulífeyrisþegum nema matið nái til 67 ára aldurs.

Hægt er að sækja um dreifingu fjármagnstekna með því að fylla út eyðublað og senda til TR. Ef umsækjandi er í hjúskap þurfa báðir aðilar að sækja um.

Ég fékk eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá TR. Eiga fjármagnstekjur af eingreiðslunni að hafa áhrif á lífeyrisréttindi hjá stofnuninni?

Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar er heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá TR.

Óska þarf sérstaklega eftir útreikningi samkvæmt reglugerð nr. 661/2010. Umsækjandi skal leggja fram gögn um greiðslu skaðabóta og frádrátt vegna áætlaðs örorkulífeyris og tekjutryggingar.