Endurreikningur – Andlát og dánarbú

Hluti tekna samkvæmt skattframtali komu til eftir andlát lífeyrisþega en voru notaðar við endurreikning greiðslna, hvað þá?

TR lítur svo á að tekjur samkvæmt skattframtali andlátsárs teljist til tekna hins látna. Ef aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur teljast til tekna dánarbús en ekki hins látna þarf að senda gögn til TR sem styðja það. Endurreikningur verður þá endurskoðaður.

Staðgreiðsluskyldar tekjur: Byggt er á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu er litið til tekna þeirra mánaða sem lífeyrisréttur var fyrir hendi í.

Aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar: Almenna reglan er sú að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur skulu hafa áhrif á endurreikning lífeyrisréttinda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur var fyrir hendi í. 

Þarf dánarbú eða erfingjar þess að endurgreiða skuld vegna ofgreiddra réttinda?

Samkvæmt lögum verður við andlát einstaklings til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna.

Erfingjum ber að hlutast til um skipti dánarbús hjá sýslumönnum innan fjögurra mánaða frá andláti. Ábyrgð á skuldbindingum búsins fer eftir hvernig skiptum er háttað. 

Skiptum getur almennt lokið með ferns konar hætti:

  1. Einkaskiptum: Erfingjar gangast undir óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins.
  2. Eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi: Eftirlifandi maki ber ábyrgð á skuldbindingum búsins.
  3. Opinberum skiptum: Skiptastjóri er skipaður af héraðsdómi og fer með forræði búsins. Erfingjar geta ábyrgst skuldbindingar þess.
  4. Sýslumaður lýsir yfir eignaleysi dánarbúsins: Enginn er í ábyrgð fyrir skuldum búsins.

Mikilvægt er að umboðsmenn dánarbúa eða erfingjar skili skattframtali vegna óendurreiknaðra ára til RSK svo endurreikningur TR byggi á réttum forsendum.

Á dánarbú eða erfingjar þess rétt á að fá inneign greidda?

Dánarbú og erfingjar eiga rétt á að fá inneign greidda.

Ef ekki er búið að loka bankareikningi hins látna er inneign greidd inn á þann reikning nema umboðsmaður dánarbús hafi óskað eftir öðru fyrirkomulagi. Hafi reikningi verið lokað þarf umboðsmaður að koma upplýsingum um nýjan bankareikning til TR. 

Ef enginn er umboðsmaður eða ef skiptum er lokið þurfa allir erfingjar að gefa einum umboð til að taka við inneign.