Flutningur til Íslands

Við flutning til Íslands þurfa lífeyrisþegar að skrá sig inn í landið hjá Þjóðskrá Íslands og þá geta lífeyrisþegar sótt um ýmsar greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar. 

Það sem telst félagsleg aðstoð er:

  • Barnalífeyrir vegna náms
  • Dánarbætur
  • Endurhæfingarlífeyrir (og tengdar bætur)
  • Heimilisuppbót
  • Maka- og umönnunarbætur
  • Mæðra- og feðralaun
  • Sérstök uppbót til framfærslu
  • Umönnunargreiðslur
  • Uppbætur á lífeyri

Sjá frekari upplýsingar um örorku og ellilífeyri 

Spurt og svarað

Almenna reglan fyrir lífeyrisréttindum á Íslandi er að einstaklingur hafi búið hér á landi í að minnsta kosti 3 ár.

Undanþága er á þessu 3 ára skilyrði ef einstaklingur hefur búið í öðrum EES-löndum eða búið og starfað í Bandaríkjunum. Einstaklingur sem hefur búið í öðru EES-landi getur þannig átt rétt á Íslandi eftir 1 árs búsetu hér á landi og Bandaríkjunum eftir 1 árs starfstíma.

  • Tvö ár innan EES + búseta í eitt ár á Íslandi = Réttindi á Íslandi

Búsetuhlutfall er útreikningur á búsetu einstaklings á Íslandi og segir til um það hver réttindi einstaklings er við greiðslur frá TR.

Fullur réttur til ellilífeyris á Íslandi miðast við 40 ára búsetu og eiga þeir réttindi sem búið hafa a.m.k. 3 ár á Íslandi frá 16 ára til 67 ára aldurs. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur en 40 ár er reiknaður hlutfallslega út frá búsetu þeirra hér á landi.

Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris. Almenna reglan er að þeir eigi rétt sem hafa búið hér á landi a.mk. í 3 ár, nema ef annað leiðir af milliríkjasamningum.

Kveðið er á um skilyrði og ávinnslu örorkulífeyris í 24. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Í 1. mgr. 24. gr. er að finna skilyrði varðandi búsetu og samkvæmt ákvæðinu verða umsækjendur að uppfylla a.m.k. eitt eftirfarandi skilyrða:

  • hafa verið tryggðir hér á landi samfellt a.m.k. þrjú síðustu árin áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%,
  • hafa verið tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri,

hafa verið tryggðir hér á landi í samfellt síðustu tólf mánuði áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75% og áður annaðhvort verið tryggðir hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 16 ára aldur eða að lágmarki fimm ár eftir 16 ára aldur enda hafi þá búseta erlendis eftir 16 ára aldur ekki staðið lengur en í fimm ár.

Sá sem ekki nær þessum 40 árum fær búsetuhlutfall miðað við það hve löng búsetan á Íslandi hefur verið. Sá sem hefur til dæmis búið á Íslandi í 20 ár á aldrinum 16-67 ára fær þannig 50% búsetuhlutfall og því 50% greiðslur frá TR.

Þegar talað er um skerta starfsorku er átt við það hvort einstaklingur sé á einhvern hátt veikur eða fatlaður þannig að viðkomandi hafi ekki fulla starfsgetu.