Lífeyrisþegar erlendis

Elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru búsettir í öðru EES landi halda rétti sínum til lífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Þetta á ekki við um ýmiss konar uppbætur og greiðslur skv. lögum um félagslega aðstoð.

Einstaklingur (brottfluttur Íslendingur og/eða erlendur ríkisborgari sem hefur búið og starfað á Íslandi) sem er þegar búsettur erlendis í EES landi er hann nær lífeyrisaldri eða verður öryrki á að snúa sér til tryggingastofnunar í viðkomandi landi til að sækja um lífeyrisgreiðslur til Íslands. Viðkomandi stofnun sér síðan um að senda umsóknina til Tryggingarstofnunar á Íslandi. Til dæmis myndi Íslendingur búsettur í Danmörku hafa samband við Udbetaling Danmark þegar kemur að því að sækja annað hvort um ellilífeyri eða örorkulífeyri frá TR.

Ellilífeyrir

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem hafa búið á Íslandi í a.m.k. 3 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Réttur til ellilífeyris miðast við 67 ára aldur. Fullur réttur á Íslandi miðast við 40 ára búsetu á aldrinum 16 – 67 ára. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur er reiknaður út hlutfallslega .

Á grundvelli samninga, t.d. EES samningsins, haldast áunnin réttindi í hverju EES landi þrátt fyrir flutning. Þegar sótt er um ellilífeyri er réttur til greiðslu lífeyris í hlutfalli við tryggingatímabil í hverju landi fyrir sig. 

Örorkulífeyrir

Þeir sem hafa verið metnir til a.m.k. 75% örorku, eru á aldrinum 18 til 67 ára og hafa búið á Íslandi a.m.k. 3 síðustu ár fyrir umsókn geta átt rétt á örorkulífeyri frá TR. Fullur réttur miðast við 40 ára búsetu á aldrinum 16 – 67 ára. Réttur þeirra sem búa hér skemur á þessu aldursbili reiknast hlutfallslega.  

Á grundvelli samninga, t.d. EES samningsins, haldast áunnin réttindi í hverju EES landi þrátt fyrir flutning. Þegar sótt er um örorkulífeyri er réttur til greiðslu lífeyris í hlutfalli við tryggingatímabil í hverju samningslandi fyrir sig að því gefnu að viðkomandi hafi fengið örorkumat þar í landi. 

Athygli er vakin á því að örorkumatsviðmið eru mismunandi milli landa og því þarf réttur í einu landi ekki að skapa rétt í öðru landi.

Endurmat örorkulífeyris fyrir erlendis búsetta

Örorkumat getur annað hvort verið tímabundið eða ótímabundið. Sé um tímabundið örorkumat að ræða þarf að sækja um endurnýjun þess ef veikindi eru enn til staðar þegar tímabil rennur út. Lífeyrisþegi sem er búsettur erlendis þarf að fylla út umsókn og senda inn læknisvottorð frá lækni í búsetulandi sem er byggt á skoðun. Í vottorðinu þarf eftirfarandi að koma fram:

Sjúkdómsgreining (ICD 10 alþjóðlegur læknakóði)

Meðferð (hvaða meðferð er í gangi, lyf, sjúkraþjálfun, aðgerðir eða annað)

Útskýring á því hvers vegna sjúklingur er óvinnufær

Framtíðarhorfur

Umsóknina má finna inn hér