Lífeyrisgreiðslur frá öðrum löndum

Þeir sem hafa búið eða starfað erlendis gætu hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í viðkomandi landi. Það skiptir máli varðandi réttindi og umsóknarferli hvort samningur sem tekur til lífeyristrygginga sé í gildi við viðkomandi landi. Tryggingastofnun er samskiptastofnun þegar um er að ræða lífeyrisumsóknir til samningsríkja.

Einstaklingar sem búa hér á landi og hafa áður búið eða starfað í öðrum EES löndum og áunnið sér þar rétt til lífeyris eiga rétt á að fá lífeyri greiddan frá hverju landi um sig þegar lífeyrisaldri er náð eða þegar um örorku er að ræða að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Á umsóknareyðublöðum Tryggingastofnunar um lífeyrisbætur er spurt um búsetu- og starfstíma erlendis. Þegar um EES land er að ræða þarf að fylla út sérstök EES umsóknar- og upplýsingablöð og þau síðan send samskiptastofnun í viðkomandi landi sem ákvarðar greiðslur í samræmi við áunnin réttindi skv. þarlendum reglum og skv. EES reglur.

Umsóknir ef búseta hefur verið innan EES /samningslands

Umsækjandi um lífeyri frá öðru EES-landi, norrænu landi eða Sviss, sem búsettur er hér á landi, þarf að snúa sér til Tryggingastofnunar sem annast móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis.

Sótt er um á Mínum síðum Tryggingastofnunar. 

Starfsfólk Tryggingastofnunar sendir því næst umsóknina til viðkomandi lands og gildir hún jafnt sem umsókn um greiðslu lífeyris almannatrygginga og um greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Spurt og svarað

Allar lífeyrisgreiðslur sem eru ákvarðaðar út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda eru skilgreindar sem lífeyrissjóðsgreiðslur. Þetta er sambærilegt við það sem gerist á Íslandi þar sem lífeyrissjóðir sjá um þennan hluta lífeyriskerfisins á meðan Tryggingastofnun greiðir eingöngu út þann lífeyrir er byggir á búsetu.

Á Norðurlöndum sjá sambærilegar stofnanir oft um að greiða bæði búsetutengdan lífeyri sem og lífeyri sem er byggður á fyrri tekjum á meðan Tryggingastofnun afgreiðir aðeins búsetutengdan lífeyri.

Þannig skiptast greiðslur frá Norðurlöndum í annars vegar garantipension og hinsvegar í inkomstpension eða tilläggpension. Garantipension er ákvarðaður út frá búsetu í viðkomandi landi á meðan Inkomstpension/tilläggpension  er ákvarðaður út frá launum eða greiðslu iðgjalda.

Að auki geta greiðslur einnig verið afleiðing af frjálsu viðbótarframlagi en úttekt á séreignasjóð hefur ekki áhrif á útreikning lífeyris.

Það er hægt að sjá hvar málið er statt inni á Mínum síðum undir Staða umsókna. Þar er jafnframt hægt að sjá hvort öll gögn séu komin til TR. 

Búsetuhlutfall er útreikningur á búsetu einstaklings á Íslandi og segir til um það hver réttindi einstaklings er við greiðslur frá TR.

Fullur réttur til ellilífeyris á Íslandi miðast við 40 ára búsetu og eiga þeir réttindi sem búið hafa a.m.k. 3 ár á Íslandi frá 16 ára til 67 ára aldurs. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur en 40 ár er reiknaður hlutfallslega út frá búsetu þeirra hér á landi.

Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris. Þeir eiga rétt sem hafa búið hér á landi a.mk. í 3 ár eða í 6 mánuði ef vinnufærni var óskert er þeir fluttu til landsins.

Sá sem ekki nær þessum 40 árum fær búsetuhlutfall miðað við það hve löng búsetan á Íslandi hefur verið. Sá sem hefur til dæmis búið á Íslandi í 20 ár á aldrinum 16-67 ára fær þannig 50% búsetuhlutfall og því 50% greiðslur frá TR.