Þeir sem hafa búið eða starfað erlendis gætu hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í viðkomandi landi. Það skiptir máli varðandi réttindi og umsóknarferli hvort samningur sem tekur til lífeyristrygginga sé í gildi við viðkomandi landi. Tryggingastofnun er samskiptastofnun þegar um er að ræða lífeyrisumsóknir til samningsríkja.
Einstaklingar sem búa hér á landi og hafa áður búið eða starfað í öðrum EES löndum og áunnið sér þar rétt til lífeyris eiga rétt á að fá lífeyri greiddan frá hverju landi um sig þegar lífeyrisaldri er náð eða þegar um örorku er að ræða að uppfylltum öðrum skilyrðum.
Á umsóknareyðublöðum Tryggingastofnunar um lífeyrisbætur er spurt um búsetu- og starfstíma erlendis. Þegar um EES land er að ræða þarf að fylla út sérstök EES umsóknar- og upplýsingablöð og þau síðan send samskiptastofnun í viðkomandi landi sem ákvarðar greiðslur í samræmi við áunnin réttindi skv. þarlendum reglum og skv. EES reglur.
Umsóknir ef búseta hefur verið innan EES /samningslands
Umsækjandi um lífeyri frá öðru EES-landi, norrænu landi eða Sviss, sem búsettur er hér á landi, þarf að snúa sér til Tryggingastofnunar sem annast móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis.
Sótt er um á Mínum síðum Tryggingastofnunar.
Starfsfólk Tryggingastofnunar sendir því næst umsóknina til viðkomandi lands og gildir hún jafnt sem umsókn um greiðslu lífeyris almannatrygginga og um greiðslur úr lífeyrissjóðum.