Sviss

Stofnsamningur EFTA sem gekk í gildi 2002 veitir einstaklingum að mestu leyti sömu réttindi í Sviss og þeir njóta gagnvart ESB ríkjunum á grundvelli EES samningsins.

Nýr stofnsamningur EFTA var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og er oft kallaður Vaduz-samningurinn. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júní 2002.  Hann veitir íbúum og fyrirtækjum á Íslandi sams konar réttindi í Sviss og aðilar í ESB njóta samkvæmt tvíhliðasamningum Sviss og ESB.  Svisslendingar öðlast jafnframt þessi réttindi á Íslandi.   

Þessi réttindi eru í mörgum greinum hliðstæð við þau réttindi sem í gildi eru innan EES.   M.a. geta Íslendingar notað Evrópska sjúkratryggingakortið í Sviss, krafist þess að tryggingar- eða starfstímabil frá Íslandi séu tekin til greina  að því marki sem nauðsynlegt er til að fella niður eða ,,eyða” biðtíma í Sviss þegar byrjað er að vinna í Sviss eða flutt er til Sviss.  Þá er hægt að fá greiðslur lífeyristrygginga greiddar úr landi til Sviss.