EES - samningurinn

Reglur EES-samningsins um almannatryggingar

Ákvæði ESB rg. nr. 883/2004, sbr. 29. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), gilda þegar einstaklingur flytur á milli EES-landa . Markmiðið að tryggja samræmda og samfellda beitingu mismunandi löggjafar aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga og koma þannig í veg fyrir að sá sem flytur búsetu sína milli EES-landa tapi almannatryggingaréttindum sínum. 

Dæmi: Einstaklingur sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna tapar þeim ekki þótt hann flytji til annars EES-lands. Áunninn réttur frá hverju landi fyrir sig greiðist út þegar lífeyrisaldri í viðkomandi landi er náð.

Í reglugerðinni eru samræmingarreglur um jafnræði, samlagningu búsetutímabila, réttindaávinnslu og um greiðslu lífeyrisréttinda milli landa.

Með EES-reglunum um almannatryggingar felst ekki að lífeyrisréttindi í einstökum aðildarríkjum skuli vera eins heldur eru þau einungis samhæfð með samræmingarreglunum.

EES-reglurnar taka til einstaklings sem heyrir/hefur heyrt undir löggjöf aðildarríkis og er EES-ríkisborgari, og aðstandenda þessa einstaklings. 

EES-reglurnar taka til eftirtalinna flokka almannatrygginga:

  • Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar.
  • Örorkubætur að meðtöldum bótum sem ætlað er að viðhalda eða auka möguleika á tekjuöflun.
  • Bætur vegna elli.
  • Bætur til eftirlifenda.
  • Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma.
  • Styrki vegna andláts.
  • Atvinnuleysisbætur.
  • Fjölskyldubætur.

EES-reglurnar taka til eftirtalinna greiðslna frá Tryggingastofnun

Bætur og greiðslur lífeyristrygginga skv. lögum um almannatryggingar, þ.m.t. ellilífeyrir, örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging, örorkustyrkur og barnalífeyrir.

EES-reglurnar taka ekki til greiðslna skv. lögum um félagslega aðstoð. Sama á við bætur og greiðslur í öðrum EES löndum sem teljast félagsleg aðstoð, en ekki almannatryggingar. Þá fellur meðlag ekki undir reglurnar.

Helstu meginreglur EES-reglnanna

Í rg. ESB nr. 883/2004 er að finna ákveðnar meginreglur um samræmda og samfellda beitingu löggjafar aðildarríkjanna:

  • Ríkisborgari eins aðildarríkis nýtur jafnræðis í öðru aðildarríki til jafns á við ríkisborgara þess ríkis. 
  • Einstaklingur sem rg. ESB 883/2004 tekur til heyrir aðeins undir löggjöf eins aðildarríkjanna á hverjum tíma. 
  • Taka skal til greina tryggingatímabil eða starfstímabil frá fyrra búsetulandi að því marki sem nauðsynlegt er til að öðlast tryggingaréttindi í landinu sem flutt er til. 
  • Réttur til lífeyris ávinnst í hlutfalli við búsetutíma í hverju aðildarríki fyrir sig og skv. löggjöf þess lands. 
  • Greiðslur þeirra bótaflokka sem rg. ESB 8883/2004 tekur til falla ekki niður þótt flutt sé til annars aðildarríkis.