Flutningur milli landa - samningar

Ísland hefur gert milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga við nokkur erlend ríki. Í þeim er meðal annars greint frá því hvernig réttindin ávinnast og geymast við flutning á milli landa. Einnig er vikið að því hver áhrif búseta getur haft á réttindi einstaklinga og þá sérstaklega hvaða réttindi ávinnast í öðru samningsríki og hvaða skyldur koma til. Samningarnir geta verið misjafnir milli landa.

Um EES-samninginn

Markmiðið samningsins er að tryggja þeim sem búa í EES-löndum rétt til almannatrygginga milli landa. Með EES-reglunum um almannatryggingar felst ekki að lífeyrisréttindi milli landa eigi að vera eins heldur eru þau samhæfð.

EES-reglurnar taka meðal annars tillit til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris. EES reglurnar gilda ekki um félagslega aðstoð og fellur meðlag þar með ekki undir reglurnar og er því ekki greitt á milli landa.

Norðurlönd

Samningur er í gildi á milli Norðurlandanna varðandi almannatryggingar. Markmið samningsins er að auðvelda flutning á milli Norðurlandanna og tryggja almannatryggingaréttindi fólks. Aðilar að samningi eru Ísland, Danmörk, Finnland (og Álandseyjar), Noregur, Svíþjóð, Færeyjar og Grænland.

Samningurinn tryggir að almannatryggingareglur EES-samningsins taki einnig til þeirra sem búsettir eru á Norðurlöndunum en falla þó ekki undir EES-reglurnar til dæmis Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.

Greiðslur vegna elli-, og örorkulífeyris, örorkustyrks, tekjutryggingar og barnalífeyris færast á milli landa. Þannig getur einstaklingur búsettur í öðru norrænu landi sótt um þessar greiðslur til Íslands. Lífeyrisþegi sem flytur til annars Norðurlands heldur einnig þessum greiðslum áfram. Greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar eru hins vegar ekki greiddar úr landi.

Sviss

Stofnsamningur EFTA veitir einstaklingum að mestu leyti sömu réttindi í Sviss og þeir njóta gagnvart ESB-ríkjunum á grundvelli EES-samningsins. Þetta virkar í báðar áttir en Svisslendingar öðlast þessi réttindi á Íslandi rétt eins og Íslendingar gera í Sviss.

Þessi samningur gerir það að verkum að greiðslur lífeyristrygginga eru greiddar úr landi til Sviss. Lífeyrisþegar halda þannig greiðslum elli- og örorkulífeyris, örorkustyrks, tekjutryggingar og barnalífeyris áfram við flutning til Sviss. Einstaklingar búsettir í Sviss geta einnig sótt um þessi réttindi til Íslands.

Kanada

Samningur um félagslegt öryggi er til staðar milli Íslands og Kanada. Megintilgangur hans er að tryggja félagslegt öryggi þeirra sem flytjast á milli landanna.

Samkvæmt þessum samningi getur einstaklingur sem hefur fasta búsetu í Kanada sótt um ellilífeyri til Íslands.

 • Ellilífeyrisþegar sem flytja til Kanada halda greiðslum.
 • Örorkulífeyrisþegar sem flytja til Kanada halda grunnlífeyri en greiðslur vegna tekjutryggingar flytjast ekki með.
 • Greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar, t.d. heimilisuppbót og sérstök uppbót til framfærslu, eru ekki greiddar á milli landanna.
 • TR áframsendir umsóknir til lífeyrissjóða sem einstaklingar eiga réttindi í hér á landi.
 • Skila þarf inn lífsvottorði og skattskýrslu árlega og hafa rétt heimilisfang.
 • Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár.

Bandaríkin

Samningur er til staðar á milli Íslands og Bandaríkjanna um lífeyrisgreiðslur milli landanna, þ.e. að lífeyrisréttindi tapist ekki vegna flutnings milli landanna tveggja.

Samningurinn gerir það að verkum að einstaklingur sem hefur fasta búsetu í Bandaríkjunum getur sótt um elli- og örorkulífeyri til Íslands í gegnum tengistofnun í Bandaríkjunum. TR áframsendir umsóknir til lífeyrissjóða sem einstaklingar eiga réttindi í hér á landi.

Tryggingastofnun sem tengistofnun við almannatryggingar í Bandaríkjunum sendir umsóknir um lífeyri þangað fyrir einstaklinga sem hafa fasta búsetu á Íslandi.

 • Ellilífeyrisþegar sem flytja til Bandaríkjanna halda greiðslum ellilífeyris.
 • Örorkulífeyrisþegar sem flytja til Bandaríkjanna halda grunnlífeyri og tekjutryggingu.
 • Greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar, t.d. heimilisuppbót og sérstök uppbót til framfærslu, eru ekki greiddar á milli landanna.
 • Skila þarf inn lífsvottorði og skattskýrslu árlega og hafa rétt heimilisfang.
 • Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár.