Búsetuhlutfall

Búsetuhlutfall er útreikningur á búsetu einstaklings á Íslandi og segir til um það hver réttindi einstaklings er við greiðslur frá TR.

Fullur réttur til ellilífeyris á Íslandi miðast við 40 ára búsetu og eiga þeir réttindi sem búið hafa a.m.k. 3 ár á Íslandi frá 16 ára til 67 ára aldurs. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur en 40 ár er reiknaður hlutfallslega út frá búsetu þeirra hér á landi.

Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris. Þeir eiga rétt sem hafa búið hér á landi a.mk. í 3 ár, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Sá sem ekki nær þessum 40 árum fær búsetuhlutfall miðað við það hve löng búsetan á Íslandi hefur verið. Sá sem hefur til dæmis búið á Íslandi í 20 ár á aldrinum 16-67 ára fær þannig 50% búsetuhlutfall og því 50% greiðslur frá TR.

 • Ellilífeyrir: Til þess að eiga 100% réttindi á ellilífeyri frá TR þarf búseta að ná 40 árum, frá 16 ára – 67 ára aldri.
 • Örorkulífeyrir: Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris.
 • Endurhæfingarlífeyrir, til þess að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
  • Eiga lögheimili á Íslandi
  • Vera á aldrinum 18–67 ára
  • Hafa lokið áunnum veikindarétti sínum frá atvinnurekanda og greiðslum sjúkra- eða slysadagpeninga frá stéttarfélagi.
  • Eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Athugið að réttur á sjúkradagpeningum frá stéttarfélagi getur verið til staðar í framhaldi af atvinnuleysisbótum
  • Sérreglur gilda þegar lögheimili er flutt til Íslands erlendis frá. Búa þarf á Íslandi í 12 mánuði áður en sótt er um endurhæfingarlífeyri.
  • Taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði, með umsjón heilbrigðismenntaðs fagaðila eða fagaðila sem er viðurkenndur á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar samkvæmt samningum starfsendurhæfingarsjóða
  • Vakin er athygli á að þeir sem ætla að nýta rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr fæðingarorlofssjóði, samkvæmt lögum nr. 144/2020, geta ekki á sama tíma notið endurhæfingarlífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun.