Atvinna erlendis

Þegar einstaklingur flytur til útlanda í atvinnuskyni er meginreglan sú að hann falli undir almannatryggingar þess lands sem flutt er til. Ef einstaklingur flytur innan EES-landa vinnur hann sér inn réttindi í því landi sem búið/unnið er í. Ef einstaklingur flytur út fyrir EES svæðið þá er enginn samningur til staðar sem tryggir réttindi hans í því landi líkt og EES-samningurinn gerir.

Ef flutt er tímabundið úr landi til þess að vinna þá er hægt að sækja um A1 vottorð. Með því heldur einstaklingurinn áfram að vinna sér inn réttindi á Íslandi og er áfram innan íslenska tryggingakerfisins. Það getur skipt máli að hafa A1 vottorðið meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði rukkað bæði hér á landi og erlendis. 

Þegar unnið er tímabundið erlendis í landi sem ekki er aðili að EES-samningum og milliríkjasamningur um almannatryggingar hefur ekki verið gerður við, getur einstaklingur sótt um að halda almannatryggingaréttindum sínum  hér á landi.

 • Viðkomandi verður að starfa erlendis fyrir aðila sem hefur aðsetur og starfsemi á Íslandi
 • Tryggingagjald verður að vera greitt hér á landi af launum
 • Heimilt er að halda almannatryggingaréttindum hér á landi í allt að eitt ár
 • Eftir fyrsta tímabilið er heimilt  að framlengja tryggingaskráninguna í allt að fjögur ár í viðbót ef öll skilyrði eru uppfyllt
 • Sækja þarf um framlengingu til TR að minnsta kosti 4 vikum fyrir brottför

Dvöl erlendis í atvinnuskyni

Þegar unnið er í öðru EES-landi eru það EES-reglurnar, rg. ESB 883/2004, sem kveða á um það, undir hvaða almannatryggingalöggjöf einstaklingur fellur. 

 • Einstaklingur sem vinnur eingöngu í einu EES-landi fellur að meginreglu til undir almannatryggingalöggjöf starfslandsins. Það gildir jafnvel þótt hann búi í öðru EES-landi.  
 • Sjómenn falla almennt undir almannatryggingar þess lands sem gerir út skipið.
 • Opinberir starfsmenn sem starfa erlendis falla undir sömu löggjöf og þau stjórnvöld sem þeir starfa fyrir.  Íslenskir embættismenn sem starfa erlendis fyrir íslenska ríkið falla því undir íslenskar almannatryggingar.
 • Einstaklingur sem vinnur í tveimur eða fleiri löndum til skiptis eða samtímis fellur undir almannatryggingalöggjöf búsetulandsins ef hluti af vinnunni fer fram þar.

Þegar unnið er tímabundið erlendis í landi utan EES og milliríkjasamningur um almannatryggingar hefur ekki verið gerður við, getur einstaklingur sótt um að halda réttindum sínum hér á landi.

 • Skilyrði eru m.a. að viðkomandi starfi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og að tryggingagjald sé greitt hér á landi af launum hans.
 • Heimilt er að halda réttindum hér á landi í allt að eitt ár. Að loknu fyrsta tímabilinu er heimilt  að framlengja tryggingaskráninguna í allt að fjögur ár til viðbótar ef skilyrði eru áfram uppfyllt.   
 • Sækja skal um áframhaldandi réttindi til TR eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu. 

Útsendir starfsmenn

Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES-landi getur sótt um að falla áfram undir íslenska almannatryggingalöggjöf að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. TR gefur út A1 vottorð til staðfestingar á því. 

Skilyrði:

 • Vinnusamband haldist á útsendingartíma
 • Starfsmaður verður að hafa verið tryggður á Íslandi við upphaf útsendingar 
 • Í starfi hjá vinnuveitanda fyrir upphaf útsendingar
 • Ef einstaklingur er ráðinn í þeim tilgangi að verða sendur til starfa í öðru EES landi verður vinnuveitandi að reka umtalsverða starfsemi hér á landi
 • Starfsmaður má ekki vera sendur út til þess að leysa af áður útsendan starfsmann.
 • Umsækjandi verður að vera EES-ríkisborgari til að geta átt rétt á A1. Undantekning frá þessari reglu er að finna i Norðurlandasamningnum
 • Starfið erlendis skal vera unnið fyrir vinnuveitandann og á kostnað hans 
 • Starfstímabil má ekki vera lengra en 24 mánuðir

Þessar reglur eiga einnig við um starfsfólk starfsmannaleigufyrirtækja.

Til viðbótar við A1 vottorðið þarf að hafa meðferðis Evrópska sjúkratryggingakortið sem er útgefið af Sjúkratryggingum Íslands.