Atvinna og nám erlendis

Þegar einstaklingur flytur búsetu sína vegna atvinnu er meginreglan sú að hann falli undir almannatryggingar þess lands sem flutt er til. Ef einstaklingur flytur innan EES-lands ávinnur hann sér inn réttindi í því landi sem búið/starfað er í. Ef einstaklingur flytur utan EES-lands þá gildir EES-samningurinn ekki.  

Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES-landi getur sótt um að falla áfram undir íslenska almannatryggingalöggjöf að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sama á við um þá einstaklinga sem eru að vinna í tveimur löndum, launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga og sjómenn. TR gefur út A1 vottorð til staðfestingar á því að viðkomandi einstaklingur falli undir íslenska almannatryggingalöggjöf meðan á dvöl erlendis stendur. 

Einstaklingar sem sendir eru út af vinnuveitanda sínum utan EES-svæðisins geta einnig óskað eftir því að fá að halda sínum tryggingaréttindum hér á landi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. TR gefur út sérstaka tryggingayfirlýsingu til staðfestingar á að viðkomandi falli undir íslenska almanntryggingalöggöf meðan á dvöl erlendis stendur.

Námsmaður sem á lögheimili hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur ef hann er ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Taki námsmaður upp fasta búsetu eða launavinnu í námslandinu ber honum að tilkynna slíkt til Þjóðskrár og fellur hann þá ekki lengur undir íslenska tryggingavernd. Með námsmanni er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun sem lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.