Réttindi erlendis

Þeir sem hafa búið eða starfað erlendis gætu hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í fyrra búsetulandi. Það skiptir máli varðandi réttindi og umsóknarferli hvort samningur sem tekur til lífeyristrygginga sé í gildi á milli landanna. Þegar sótt er um lífeyri frá öðru EES-landi er umsókninni skilað til TR sem sér um að sækja um réttindin til viðkomandi stofnana.

Mögulegt er að sækja réttindi til margra landa þegar lífeyrisaldri er náð eða þegar um örorku er að ræða. Ef um lönd utan EES er að ræða þarf viðkomandi að sækja rétt sinn sjálfur án milligöngu TR. 

Flutningur til Íslands

Við flutning til Íslands geta lífeyrisþegar  sótt um ýmsar greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar m.a. heimilisuppbót, meðlag, barnalífeyrir vegna náms og mæðra- og feðralaun.

Flutningur frá Íslandi

Við flutning frá Íslandi skiptir máli hvort flutt er til EES-lands eða ekki og hvort að samningur á sviði almannatrygginga sé til staðar milli Íslands og viðkomandi lands. Lífeyrisþegi sem flytur til að mynda til annars EES-lands heldur áfram lífeyrisgreiðslum sínum frá TR en greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar falla niður við flutning. Ef lífeyrisþeginn flytur utan EES-svæðisins falla allar greiðslur niður ef enginn samningur er til staðar á sviði almannatrygginga við viðkomandi land.

Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár Íslands og láta TR vita af breyttu heimilisfangi. Greiðslur geta fallið tímabundið niður ef TR fær ekki upplýsingar um nýtt lögheimili erlendis.

Lífeyrisþegar búsettir erlendis þurfa einnig á hverju ári að skila inn lífsvottorði og skattframtali frá búsetulandi. Ef viðkomandi á maka þarf skattframtal maka að fylgja með.

Áhrif búsetu erlendis

Fullur réttur til ellilífeyris á Íslandi miðast við 40 ára búsetu og eiga þeir réttindi sem búið hafa a.m.k. 3 ár á Íslandi frá 16 ára til 67 ára aldurs. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur en 40 ár er reiknaður hlutfallslega út frá búsetu þeirra hér á landi.

Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris. Þeir eiga rétt sem hafa búið hér á landi a.mk. í 3 ár eða í 6 mánuði ef starforka var óskert er þeir tóku hér búsetu.

Spurt og svarað

Það sem telst félagsleg aðstoð og greiðist ekki úr landi er eftirfarandi:

  • Barnalífeyrir vegna náms
  • Dánarbætur
  • Endurhæfingarlífeyrir (og tengdar bætur)
  • Heimilisuppbót
  • Maka- og umönnunarbætur
  • Mæðra- og feðralaun
  • Sérstök uppbót til framfærslu
  • Umönnunargreiðslur
  • Uppbætur á lífeyri

Almenna reglan fyrir lífeyrisréttindum á Íslandi er að einstaklingur hafi búið hér á landi í að minnsta kosti 3 ár.

Undanþága er á þessu 3 ára skilyrði ef einstaklingur hefur búið í öðrum EES-löndum. Einstaklingur sem hefur búið í öðru EES-landi getur þannig átt rétt á Íslandi eftir 1 árs búsetu hér á landi.

  • Tvö ár innan EES + búseta í eitt ár á Íslandi = Réttindi á Íslandi

Búsetuhlutfall er útreikningur á búsetu einstaklings á Íslandi og segir til um það hver réttindi einstaklings er við greiðslur frá TR. 

Sá sem nær ekki þessum 40 árum fær búsetuhlutfall miðað við það hve löng búsetan á Íslandi hefur verið. Sá sem hefur til dæmis búið á Íslandi í 20 ár á aldrinum 16-67 ára fær þannig 50% búsetuhlutfall og því 50% greiðslur frá TR.

Ellilífeyrir:

Til þess að eiga 100% réttindi á ellilífeyri frá TR þarf búseta að ná 40 árum, frá 16 ára – 67 ára aldri.

Örorkulífeyrir:

Réttur til örorkulífeyris byggir á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri.  Miðað er við búsetutíma á Íslandi fyrir töku lífeyris.

Þegar talað er um skerta starfsorku er átt við það hvort einstaklingur sé á einhvern hátt veikur eða fatlaður þannig að viðkomandi hafi ekki fulla starfsgetu. Einstaklingar sem koma veikir til landins þurfa að bíða í 3 ár áður en mögulegt er að sækja um lífeyri á Íslandi.