Örorkulífeyrir

Á ég rétt á örorkulífeyri?

 • Til þess að eiga rétt á örorkulífeyri þarf að sækja um að fara í örorkumat þar sem metin er færni eftir sjúkdóma, slys eða fötlun. Hjá Sjúkratryggingum Íslands er sótt um örorkumat samkvæmt slysatryggingu almannatrygginga. 
 • Til að eiga rétt á örorkulífeyri þarftu að vera á aldrinum 18–67 ára.
 • Réttindi einstaklinga byggjast á búsetu á Íslandi á tímabilinu 16 – 67 ára. Skilyrði er að einstaklingur hafi verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu ár áður en hann sækir um. Sama á við um búsetu í öðru norrænu landi á tímabilinu samkvæmt Norðurlandasamningi um almannatryggingar, að því tilskyldu að búseta á Íslandi frá 16 ára aldri nái a.m.k. einu ári. Fullar greiðslur miðast við 40 ára búsetu á Íslandi. 

 • Hafa tekjur undir ákveðnum mörkum.

Hvað þarf að fylgja með umsókn um örorku?

Hægt er að sækja um örorkulífeyri á Mínum síðum en einnig er hægt að nálgast öll eyðublöð á tr.is undir eyðublöð

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn: 

 • Læknisvottorð vegna umsóknar um örorkumat. Læknir getur sent beint til TR.
 • Spurningalisti um færni (fylltur út af umsækjanda). Hægt að gera af Mínum síðum.
 • Staðfesting um að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði eða að réttur á greiðslum sé ekki til staðar.
 • Greinargerð frá endurhæfingaraðila sem staðfestir að endurhæfing sé fullreynd (ef við á).
 • Tekjuáætlun (má einnig skila þegar niðurstaða liggur fyrir). Hægt að gera af Mínum síðum.

 • Upplýsa þarf TR um nýtingu persónuafsláttar þegar til greiðslna kemur. Hægt er að koma þeim upplýsingum á framfæri á tekjuáætlunarblaði.

Hvernig er umsókn mín metin?

Flestir sem sækja um örorkulífeyri eru kallaðir í skoðun hjá lækni sem starfar utan TR. Læknirinn fer eftir örorkumatsstaðli og metur færni hvers og eins út frá honum. Niðurstaðan er síðan send til yfirlæknis TR sem metur hvort réttur sé til staðar. Grundvöllurinn fyrir því að eiga rétt á örorkulífeyri er að hafa 75% örorkumat. Ef matið er lægra en 75% er möguleiki á að hafa rétt til örorkustyrks. 

Hvenær fæ ég að vita niðurstöðuna?

Miðað við að öll gögn hafi borist er afgreiðslutími umsóknar um örorkulífeyri:

 • Nýtt mat um 14 vikur. 
 • Endurmat örorku um 6 vikur.

Ef sótt er um lífeyri á milli landa getur afgreiðslufrestur verið að lágmarki 6 mánuðir. 

Hvenær fæ ég greitt?

Greiðslur eru frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að umsókn og öll fylgigögn hafa borist TR. Greitt er eftir að niðurstaða liggur fyrir hjá lækni TR. 

Get ég sótt um afturvirkt?

Mögulegt er að sækja um afturvirkar greiðslur í allt að tvö ár ef sýnt er fram á að sjúkdómur, slys eða fötlun var til staðar á því tímabili. Réttindi eru metin út frá læknisvottorði. 

Hversu lengi get ég fengið örorkulífeyri?

Mat á örorku er yfirleitt tímabundið en fer eftir aðstæðum hverju sinni. Ef veikindi eru enn til staðar þegar tímabili lýkur er hægt að sækja um aftur. Þá þarf að leggja fram nýtt læknisvottorð og umsókn.  

Hvernig sæki ég um endurmat örorku?

Sá sem hyggst sækja um endurmat verður að huga að því með fyrirvara.

Gögn sem skila þarf við endurmat örorku:

 • Undirrituð umsókn, athuga að merkja við alla reiti sem við eiga.
 • Læknisvottorð frá þeim lækni sem best þekkir til veikindanna.

Ef önnur gögn reynast nauðsynleg til að hægt sé að meta réttindi, mun umsækjandi fá bréf um það eftir að umsókn og læknisvottorð hafa borist Tryggingastofnun.

Frá því öll gögn berast Tryggingastofnun tekur endurmat um sex vikur í vinnslu.

 Hver er réttur minn ef ég hef starfað erlendis?

TR aðstoðar þá sem hafa starfað innan EES-landa að sækja um örorkulífeyri frá viðkomandi landi. Umsóknarferli erlendis getur tekið allt að 6 mánuði. 

Umsókn um lífeyri frá öðru EES-landi er að finna undir eyðublöð.

Hvenær falla réttindi til örorkulífeyris niður?

 • Réttindin eru tekjutengd og falla greiðslur niður ef tekjur fara yfir ákveðin mörk.
 • Ef flutt er til  lands utan evrópska efnahagssvæðisins (EES), Bandaríkjanna eða Kanada.
 • Þegar örorkumat fellur úr gildi. Mikilvægt er að sækja um endurmat tímanlega ef veikindi eru enn til staðar.
 • Ef dvalið er lengur en í mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili.
 • Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu falla niður allar greiðslur TR til hans.
 • Ef lífeyrisþegi er úrskurðaður í gæsluvarðhald eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl.
 • Við andlát.

Hvaða réttindi geta fylgt örorkulífeyri?

 • Tekjutrygging.
  Ekki þarf að sækja sérstaklega um tekjutryggingu

Hver er munurinn á örorkulífeyri og örorkustyrk?

Réttur til örorkulífeyris myndast við 75% örorkumat samkvæmt matsstaðli. Ýmis réttindi geta fylgt örorkulífeyri eftir því sem við á, s.s. tekjutrygging, heimilisuppbót, bensínstyrkur o.fl. 

Örorkulífeyrisþegar geta fengið örorkuskírteini sem veitir ýmsan afslátt. 

Réttur til örorkustyrks getur verið til staðar ef örorkumat er 50%. Örorkustyrkur fyrir þá sem eru 18-62 ára er um 3/4 af grunnlífeyri en fyrir þá sem eru 62-67 ára er styrkurinn fullur grunnlífeyrir. Engin viðbótarréttindi fylgja örorkustyrk nema til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á sínu framfæri.

Ekki er hægt að fá örorkuskírteini út á örorkustyrk. 

Örorkustyrkurinn er tekjutengdur á svipaðan hátt og örorkulífeyrir.

Hvað er örorkuskírteini?

Einstaklingur sem fær metna 75% örorku fær útgefið örorkuskírteini. 

 • Skírteinið veitir afslátt á læknisþjónustu, sjúkraþjálfun og lyfjum og endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu.
 • Ýmsar stofnanir og fyrirtæki gefa afslátt af vörum og þjónustu gegn framvísun skírteinisins.
 • Kortið er á Mínum síðum undir rafræn skjöl. 
 • Örorkuskírteini gildir sama tíma og örorkumatið .


Síða yfirfarin/breytt 03.05.2017


Til baka

Öryrkjar

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica