Tekju- og greiðsluáætlun

Tekjuáætlun

Ellilífeyrir, örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og tengdar greiðslur eru tekjutengdar og reiknast út frá tekjuáætlun. Þegar sótt er um lífeyri þarf alltaf að skila inn tekjuáætlun. Hægt er að skoða og breyta tekjuáætlun á Mínum síðum. Hér er hægt að horfa á fræðslumyndband um tekjuáætlun.

Mikilvægt er að greina frá skattskyldum tekjum (brúttó) og hafa tekjuáætlun nákvæma. Einnig er brýnt að leiðrétta áætlunina ef tekjur breytast. Ef tekjuáætlun er breytt þá breytast greiðslur það sem eftir er ársins.

Greiðslur hvers árs eru gerðar upp eftir á með uppgjöri. Tryggingastofnun ber að endurreikna og leiðrétta tekjutengd réttindi á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali. Uppgjör er birt í maí hjá flestum lífeyrisþegum. Hafi skattskyldar tekjur verið hærri en skráð var í tekjuáætlun myndast skuld sem er innheimt þegar leiðréttingin (uppgjörið) fer fram.  Hafi skattskyldar tekjur verið lægri en skráð var í tekjuáætlun myndast inneign sem er greidd út í júní að loknu uppgjöri ár hvert.

Við gerð tekjuáætlunar er hægt að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna. í því felst að atvinnutekjur hafa aðeins áhrif réttindi viðskiptavina þá mánuði sem þeirra er aflað. Hér má finna frekari upplýsingar um mánaðaskiptingu atvinnutekna.

Greiðsluáætlun

Í upphafi árs er hægt að sjá greiðsluáætlun fyrir árið á Mínum síðum. Áætlunin sýnir lífeyrisgreiðslur sundurliðaðar eftir greiðslutegundum og mánuðum.

  • Greiðsluáætlun miðast við þær tekjur sem gefnar eru upp í tekjuáætlun. 
  • Lífeyrisþegar geta einnig skoðað tekjur sínar í staðgreiðsluskrá RSK (á vefnum www.skattur.is) til að tekjuáætlun sé sem réttust.
  • Mánaðarlegir greiðsluseðlar eru ekki sendir út en hægt er að sækja þá á Mínum síðum.

Spurt og svarað

Tryggingastofnun er bundin af þeim tekjum sem birtast á skattframtali einstaklinga. Komi fram söluhagnaður á skattframtali þá hefur hann áhrif á útreikning réttinda. Hægt er að skoða hvernig skattur skráir söluhagnað á vef skattsins.

Arfur sem slíkur hefur ekki áhrif. Aftur á móti geta vextir sem af arfinum myndast haft áhrif á lífeyrisgreiðslur.

Séreignarlífeyrissparnaður er sparnaður sem byggist á skyldubundnu iðgjaldi í lífeyrissjóði.

Hingað til hefur úttekt séreignarlífeyrissparnaðar ekki haft áhrif á lífeyrisgreiðslur til elli-, örorku og endurhæfingarlífeyrisþega. Þann 1. janúar 2023 taka gildi breytingar vegna úttektar á séreignarlífeyrissparnaði. Þeir sem sækja um lífeyri frá og með 1. janúar 2023 mun falla undir nýjar reglur um meðferð séreignarlífeyrissparnaðar. Úttekt séreignarlífeyrissparnaðar mun hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur þeirra.

Kynntu þér breytingarnar nánar hér.

Viðbótarlífeyrissparnaður er sparnaður þar sem þú greiðir 2% eða 4% af launum og launagreiðandi leggur 2% fram á móti.

Úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði hefur ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Úttektin hefur hins vegar áhrif á greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu sem heimilt er að greiða örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum.

Fjármagnstekjur eru sameign hjóna og sambúðarfólks skv. 16. og 49. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Hefur helmingur þeirra tekna áhrif á réttindi lífeyrisþega. Á tekjuáætlun á að skrá heildar fjármagnstekjur sem skiptast svo sjálfkrafa á milli við útreikning TR.