Örorkulífeyrir

Örorkulífeyrir er ætlaður einstaklingum á aldrinum 18-67 ára sem geta ekki unnið fulla vinnu sökum skertrar starfsgetu. Sótt er um að fara í örorkumat þar sem færni er metin.

 • Flestir eru kallaðir í skoðun hjá lækni sem starfar utan TR
 • Farið er eftir örorkumatsstaðli
 • Niðurstaðan er send til yfirlæknis TR sem metur hvort réttur sé til staðar
 • Þeir sem fá örorkulífeyri eru metnir með 75% örorku

Mat á örorku er yfirleitt tímabundið en tímalengdin fer eftir aðstæðum hverju sinni. Einnig er mögulegt að sækja um afturvirkar greiðslur í allt að tvö ár ef sýnt er fram á að sjúkdómur, slys eða fötlun var til staðar á því tímabili.

Fylgiskjöl með umsókn:

Þegar sótt er um örorku þarf alltaf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

 • Læknisvottorð vegna umsóknar um örorkumat
 • Spurningalisti um færniskerðingu (fylltur út af umsækjanda)
 • Greinargerð frá endurhæfingaraðila sem staðfestir að endurhæfing sé fullreynd (ef við á)
 • Tekjuáætlun
 • Staðfesting um að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði eða að réttur á greiðslum sé ekki til staðar
 • Upplýsingum um nýtingu skattkorts (hægt að skrá inni á Mínum síðum)

Réttindi vegna örorkulífeyris

Ýmis réttindi eða uppbætur geta fylgt örorkulífeyri. Þessar greiðslur eru þó allflestar háðar ákveðnum skilyrðum, t.d. varðandi tekjur, búsetu og heimilisaðstæður.

Barnalífeyrir

Lífeyrisþegar geta átt rétt á barnalífeyri ef þeir eru með börn undir 18 ára á framfæri sínu eða greiða meðlag með þeim. Greiðsla barnalífeyris er háð því að annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft hafi búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

 • Barnalífeyrir greiðist foreldrum eða þeim sem annast framfærslu barnanna
 • Barnalífeyrir er 35.565 kr. á mánuði með hverju barni
 • Foreldri sem afplánar dóm getur fengið barnalífeyri ef vistun hefur varað að minnsta kosti þrjá mánuði 

 

Heimilisuppbót

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót verður umsækjandi að vera einhleypur og búa einn. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða. Tvær undantekningar eru á þessu en mögulegt er að fá heimilisuppbót ef:

 • Einstaklingur á aldrinum 18-25 ára sem er í námi eða starfsþjálfun býr á heimilinu. Skila þarf inn skólavottorði fyrir ungmennið með umsókninni.

Heimilisuppbótin er tekjutengd og fellur niður ef heildartekjur fara yfir viðmiðunarmörk. 

Heimilisuppbótin fellur einnig niður ef:

 • Viðkomandi býr ekki lengur einn
 • Flutt er úr landi
 • Flutt í annað húsnæði en þá þarf að sækja um aftur

Skila þarf inn afriti af húsaleigusamningi ef umsækjandi býr í leiguhúsnæði.

Uppbót á lífeyri

Uppbót á lífeyri er heimilt að greiða vegna:

 • Umönnunarkostnaðar
 • Lyfjakostnaðar
 • Kaupa á heyrnartækjum
 • Húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta
 • Dvalar á sambýli/áfangaheimili
 • Rafmagnskostnaðar vegna notkunar á súrefnissíu

Upphæð uppbóta er reiknuð út frá tekjum og kostnaði.

Uppbætur eru tekjutengdar og falla niður ef heildartekjur eru yfir 261.772 kr. á mánuði eða ef eignir í peningum eða verðbréfum fara yfir 4.000.000 kr. á einstakling.

 

Spurt og svarað

Ef veikindi eru enn til staðar þegar tímabil örorkumats rennur út er hægt að sækja um endurmat. Sækja þarf um með fyrirvara þar sem afgreiðslutími getur verið nokkrar vikur. Við endurmat þarf að skila inn:

 • Nýrri umsókn um örorkulífeyri
 • Læknisvottorði frá þeim lækni sem best þekkir til veikindanna
 • Staðfestingu frá lífeyrissjóði um að sótt hafi verið um greiðslur hjá þeim eða að réttur sé ekki til staðar

Ef önnur gögn reynast nauðsynleg til að hægt sé að meta réttindi mun umsækjandi fá bréf um það eftir að umsókn og læknisvottorð hafa borist TR.

TR aðstoðar þá sem hafa starfað innan EES-landa að sækja um örorkulífeyri frá viðkomandi landi. Umsóknarferli erlendis getur tekið allt að 6 mánuði. 

Umsókn um lífeyri frá öðru EES-landi er að finna undir eyðublöð.

Greiðslur örorkulífeyris eru háðar ýmsum skilyrðum en greiðslur geta fallið niður ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt:

 • Réttindin eru tekjutengd og falla greiðslur niður ef tekjur fara yfir ákveðin mörk.
 • Ef flutt er til lands utan evrópska efnahagssvæðisins (EES), Bandaríkjanna eða Kanada.
 • Þegar örorkumat fellur úr gildi. Mikilvægt er að sækja um endurmat tímanlega ef veikindi eru enn til staðar.
 • Ef dvalið er lengur en í mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili.
 • Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu falla niður allar greiðslur TR til hans.
 • Ef lífeyrisþegi er úrskurðaður í gæsluvarðhald eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl.
 • Við andlát.

 

Leyfilegt er að vinna fyrir 1.315.000 kr. á ári án þess að það skerði örorkulífeyri. Best er að skoða reiknivélina til að fá hugmynd um greiðslur. 

Lengd búsetu á Íslandi getur haft áhrif á greiðslur frá TR. Til þess að fá full réttindi þarf að hafa búið á Íslandi í 40 ár á aldrinum 16-67 ára. Ef þeirri tímalengd er ekki náð lækkar hlutfall greiðslna í samræmi þann tíma sem viðkomandi hefur búið á Íslandi.

 • Skilyrði fyrir greiðslum er einnig að einstaklingur hafi verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu ár áður en hann sækir um.
 • Sama á við um búsetu í öðru norrænu landi á tímabilinu samkvæmt Norðurlandasamningi um almannatryggingar, að því tilskyldu að búseta á Íslandi frá 16 ára aldri nái a.m.k. einu ári.

Greiðslur frá Tryggingastofnun eru skattskyldar. 

Upplýsa þarf TR um hvaða hlutfall af persónuafslætti á að nota við útreikning réttinda. Miðað er við fyrsta skattþrep nema annað sé tekið fram.

Hægt er að skrá persónuafsláttinn og nýtingu hans á Mínum síðum. 

Viðmiðunartekjur eru allar skattskyldar tekjur sem þú færð annars staðar frá. Þetta eru þær tekjur sem þú færir inn í tekjuáætlun og TR notar til viðmiðunar við útreikning lífeyris og tengdra greiðslna.

Viðmiðunartekjur sem eru undir frítekjumörkum hafa ekki áhrif við útreikning lífeyris nema ef viðkomandi er með sérstaka uppbót til framfærslu.

Þegar réttindi eru reiknuð út er alltaf miðað við árstekjur. Þannig að það skiptir ekki máli hvort tekjurnar koma í einu lagi einhvern tímann á árinu eða í jöfnum greiðslum yfir árið. Heildartalan í hverjum tekjuflokki (lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur) er reiknuð út og deilt í 12 mánuði. 

 • Tekjutrygging og aldurstengd örorkuuppbót reiknast sjálfkrafa inn hjá örorkulífeyrisþegum ef tekjur eru undir viðmiðunarmörkum.
 • Aldurstengd örorkuuppbót miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn öryrki. Mánaðarleg greiðsla er hlutfall af óskertum örorkulífeyri.

Ef örorkulífeyrisþegi er meðlagsskyldur með barni getur viðkomandi fengið barnalífeyri sem er þá notaður til þess að greiða meðlagið. Barnalífeyririnn fer þannig beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga en ekki til lífeyrisþegans.

Heimilt er að greiða þeim sem fær greiddan örorku- eða endurhæfingarlífeyri sérstaka uppbót vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Við útreikning sérstakrar uppbótar teljast til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur skv. lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð teljast þó að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar telst ekki til tekna.