Maka - og umönnunarbætur

Maka- og umönnunarbætur eru ætlaðar þeim sem annast maka sinn eða annan aðila sem hefur sama lögheimili. Skilyrði fyrir þessum greiðslum er að sá sem þarfnast umönnunar hafi lífeyrisgreiðslur frá TR, s.s. elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Ekki er réttur á maka- og umönnunarbótum ef umsækjandi (umönnunaraðili) hefur lífeyrisgreiðslur.

Maka- og umönnunarbótum er ætlað að bæta tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls umönnunaraðila þegar lífeyrisþegi þarf umönnun við daglegt líf. Því þarf að skila inn gögnum sem sýna fram á tekjumissi.

Fylgiskjöl með umsókn:

 • Læknisvottorð sem tilgreinir umönnunarþörf lífeyrisþega við daglegt líf
 • Staðfesting um lækkað starfshlutfall eða starfslok umönnunaraðila
 • Launaseðla síðustu þrjá mánuði fyrir dagsetningu umsóknar
 • Ef um lækkun á endurreiknuðu endurgjaldi er að ræða þarf staðfestingu frá RSK
 • Staðfesting frá RSK um tekjuleysi ef það á við. Dagsetning þarf að vera sú sama og á umsókninni
 • Staðfest skattframtal umsækjanda

Spurt og svarað

 • Umsækjandi verður að hafa sama lögheimili og aðilinn sem þarfnast umönnunar
 • Umsækjandi má ekki hafa lífeyrisgreiðslur frá TR
 • Sá sem þarfnast umönnunar þarf að hafa lífeyrisgreiðslur frá TR, elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyri
 • Umsækjandi verður að geta sýnt fram á að tekjur hafi lækkað eða fallið niður vegna umönnunarþarfa veika einstaklingsins

Umsókn um maka- og umönnunarbætur er synjað ef:

 • Umsækjandi er lífeyrisþegi
 • Tekjur umsækjanda eru yfir viðmiðunarmörkum
 • Umsækjandi er með atvinnuleysisbætur en þá telst viðkomandi ekki hafa lækkað starfshlutfall og er í atvinnuleit
 • Umsækjandi er í fullu námi
 • Umsækjandi hefur ekki sama lögheimili og sá sem þarfnast umönnunar
 • Ekki er sýnt fram á tekjumissi
 • Ef umönnun fer fram utan dagvinnutíma

Ef heildartekjur umsækjanda fara yfir viðmiðunarmörk fellur réttur til maka- og umönnunarbóta niður. Viðmiðunarmörkin eru sú fjárhæð þegar réttindi til ellilífeyris hjá TR falla niður. 

Heildartekjur eru tekjur umsækjanda og maka- og umönnunargreiðslur samanlagðar.