Bifreiðamál

Einstaklingar með hreyfihömlun geta átt rétt á uppbót til reksturs bifreiðar eða uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna. Blindir sem og aðrir sem ekki hafa gilt ökuskírteini geta átt rétt en verða þá að hafa annan heimilismann til að keyra bílinn. 

Markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða er að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. 

Hægt er að sækja um uppbót og styrk til bifreiðakaupa á 5 ára fresti.

Með umsókn þarf að skila hreyfihömlunarvottorði frá lækni. Ef umsækjandi hefur þegar skilað inn hreyfihömlunarvottorði til TR nægir að vísa til þess.   

TR er heimilt að óska eftir áliti Sjúkratrygginga Íslands á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið. 

Spurt og svarað

 • Umsækjandi eða annar heimilismaður verður að hafa ökuréttindi. Á ekki við um þá sem eru í sjálfstæðri búsetu og hafa persónulegan aðstoðarmann. 
  Í þeim tilvikum þarf viðkomandi að hafa samning við sveitarfélag t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.
 • Bifreiðin verður að vera skráð á umsækjanda/framfæranda barns eða maka (má vera rekstrarleiga eða kaupleiga).
 • Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð styrks/uppbótar. Styrkur/uppbót má ekki hafa verið greiddur áður vegna sömu bifreiðar. 
 • Eingöngu er heimilt að greiða uppbót/styrk vegna fólksbifreiða og sendibifreiða sem eru til almennra nota. Hafa ber í huga hvort umsækjandi hafi þörf fyrir sendibifreið vegna fötlunar sinnar. Allar bifreiðar þurfa að vera til daglegra nota.

Uppbót til reksturs bifreiðar er mánaðarleg upphæð sem er ætluð til þess að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Skilyrði er að viðkomandi hafi hreyfihömlunarmat hjá TR og eigi bifreið sem er skoðuð og tryggð.

Heimilt er að greiða lífeyrisþega og örorkustyrksþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna. 

Uppbót til bifreiðakaupa er að fjárhæð 360.000 kr. Fyrir þá sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn á ævinni þá er fjárhæðin 720.000 kr.

Heimilt er að veita styrk að fjárhæð 1.440.000 kr. til að kaupa bifreið sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Þá er heimilt að veita styrk til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt nánari skilyrðum:

 • Umsækjandi þarf að vera hreyfihamlaður og vera t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.
 • Umsækjandi þarf að vera sjúkratryggður hér á landi. 

Heimilt er að veita styrk sem nemur allt að 60% af kaupverði bifreiðar, það er grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. 

Hámarksstyrkur er 6.000.000 kr. Áður en uppbót eða styrkur er greiddur skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð bifreiðar. Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks.

Sótt er um niðurfellingu bifreiðagjalda hjá Skattinum.

TR veitir hreyfihömluðum ellilífeyris-, örorkulífeyris- og örorkustyrksþega lán til kaupa á bifreið, sem nauðsynleg er vegna hreyfihömlunar umsækjanda.

 • Einnig er hægt að veita lán til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna.
 • Sömu skilyrði eru fyrir lánveitingu og vegna kaupa á bifreið.
 • 180.000 kr. fyrir þá sem eiga rétt á uppbót vegna bifreiðakaupa (360.000 kr.) samkvæmt hreyfihömlunarmati.
 • 340.000 kr. fyrir þá sem eiga rétt á styrk til bifreiðakaupa (1.440.000 kr.) samkvæmt hreyfihömlunarmati.

Eingöngu mjög hreyfihamlaðir einstaklingar, t.d. þeir sem verða að notast við tvær hækjur eða hjólastól, geta átt rétt á hærra láninu.  

Lánið er miðað við meðalvexti óverðtryggðra skuldabréfalána. Þau eru til þriggja ára og endurgreiðast með jöfnum mánaðargreiðslum sem dregnar eru af greiðslum TR. 

 • Ef umsækjandi sækir samtímis um lán til bifreiðakaupa og uppbót vegna kaupa á bifreið skal kaupverð bifreiðar ekki vera lægra en samanlögð fjárhæð bifreiðaláns og uppbótar (540.000 kr.)
 • Ef umsækjandi sækir samtímis um lán til bifreiðakaupa og styrk vegna kaupa á bifreið skal kaupverð bifreiðar ekki vera lægra en samanlögð fjárhæð bifreiðaláns og styrks (1.780.000 kr.)
 • Ef aðeins er sótt um bifreiðalán skal kaupverð bifreiðar ekki vera lægra en samanlögð fjárhæð bifreiðaláns og uppbótar/styrks (540.000 kr./1.780.000 kr.)