Hægt að sækja um greiðslur hjá TR sem er ætlað að tryggja lifandi líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar. Heimilt er að greiða í allt að þrjá mánuði.
Skilyrði fyrir greiðslunum er að líffæragjafi eigi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær eða gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar. Viðkomandi verður enn fremur að hafa lögheimili hér á landi þann tíma sem greitt er.
Greiðslurnar eru tekjutengdar og eru greiddar eftir á í lok mánaðar. Ekki má hafa greiðslur atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs eða -styrks, lífeyrisgreiðslur frá TR eða foreldragreiðslur frá TR á sama tíma og greiðslur vegna líffæragjafa.
Fylgiskjöl með umsókn:
- Vottorð sérfræðings sem annast líffæragjöfina þar sem fram kemur tímabil sem líffæragjafi þarf að gera hlé á námi eða er óvinnufær
- Staðfesting frá skóla á að líffæragjafi hafi gert hlé á námi
- Staðfesting frá skóla á fyrri skólavist líffæragjafa
- Staðfesting vinnuveitanda á að störf hafi verið lögð niður
- Staðfesting vinnuveitanda á að launagreiðslur hafi fallið niður
- Staðfesting vinnuveitanda á starfstímabili og starfshlutfalli
- Tekjuáætlun
Líffæragjafi í námi
Einstaklingar sem hafa verið í námi þegar þeir gerast líffæragjafar geta fengið greitt frá þeim degi sem hlé er gert á námi vegna líffæragjafar.
- Líffæragjafi þarf að hafa verið í 75-100% námi í sex af síðustu 12 mánuðum áður en hlé er gert á námi.
- Undanþágu má veita ef umsækjandi:
- Var í samfelldu starfi í sex mánuði áður en nám hófst
- Lauk einnar annar námi og var í vinnu frá því að námi lauk (nám + vinna = sex mánuðir eða meira)
- Líffæragjafi sem stundar nám erlendis getur fengið þessar greiðslur ef lögheimili var flutt tímabundið erlendis vegna námsins. Skilyrði fyrir því er að viðkomandi hafi haft lögheimili á Íslandi í minnst fimm ár fyrir flutning.
Líffæragjafi á vinnumarkaði
Einstaklingar sem hafa verið á vinnumarkaði þegar þeir gerast líffæragjafar geta fengið greitt frá þeim degi þegar fullar launagreiðslur falla niður vegna líffæragjafar.
- Umsækjandi verður að hafa unnið í sex mánuði eða lengur á innlendum vinnumarkaði
- Starfshlutfallið verður að hafa náð 25%. Starfshlutfall sjálfstætt starfandi einstaklinga miðast við skil á tryggingagjaldi
- Líffæragjafi greiðir að lágmarki 4% í lífeyrissjóð en TR greiðir 8% mótframlag
- Hægt er að óska eftir því að greiða í séreignasjóð og til stéttarfélags
Greiðslur eru 80% af meðaltali launa og er miðað við tekjuárið á undan því ári sem líffæragjöfin er framkvæmd. Þetta á bæði við launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Ef líffæragjafi kemur til baka í lægra starfshlutfall en hann var í fyrir líffæragjöfina getur hann átt rétt á hlutfallslegum greiðslum. Sama á við ef líffæragjafi þarf að minnka starfshlutfall fyrir líffæragjöfina. Skilyrði er að lægra starfshlutfall megi rekja til líffæragjafarinnar. Vottorð læknis sem annast líffæragjöfina þarf að fylgja.