Réttindi erlendis

Útsendir starfsmenn á EES svæðinu

Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES landi getur sótt um að falla áfram undir íslensk almannatryggingalög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tryggingastofnun gefur út vottorð PD A1 til staðfestingar á því að íslensk almannatryggingalöggjöf gildi áfram á útsendingartíma.

PD A1 vottorð

PD A1 vottorð er ákvörðun um það hvaða almannatryggingalöggjöf EES lands einstaklingur fellur undir meðan á erlendum starfstíma stendur. Ákvörðunin um áframhaldandi aðild að almannatryggingakerfinu hér á landi felur jafnframt í sér að einstaklingur er sjúkra- og slysatryggður og safnar lífeyrisréttindum hér á landi.

Það getur skipt verulegu máli að hafa PD A1 vottorð meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði rukkað bæði hér á landi og erlendis.

Eftirtalin atriði koma til skoðunar við mat á því hvort útsending telst vera fyrir hendi:

 • Vinnusamband haldist á útsendingartíma.
  Við mat á þessu er tekið tillit til ýmissa atriða, s.s. ábyrgðar á ráðningu og uppsögn, ráðningarsamnings, starfslýsingar o.fl.
 • Starfsmaður verður að hafa fallið undir íslensk almannatryggingalög við upphaf útsendingar til að skilyrðinu um samfellda og áframhaldandi tryggingu séu uppfyllt. Þetta þýðir að starfsmaður sem við upphaf ráðningar er þegar búsettur eða starfar í öðru EES-ríki getur ekki sótt um að falla undir íslenska almannatryggingalöggjöf meðan á erlendum starfstíma stendur.
 • Í starfi hjá vinnuveitanda fyrir upphaf útsendingar.
 • Ef einstaklingur er ráðinn í þeim tilgangi að verða sendur til starfa í öðru EES landi verður vinnuveitandi að reka umtalsverða starfsemi hér á landi. Við mat á því er tekið tillit til ýmissa atriða, s.s. skráningar starfsemi, fjölda annarra starfsmanna hér á landi, umsvifa o.fl.
  Starfsmaður má heldur ekki vera sendur út til þess að leysa af áður útsendan starfsmann.
 • Umsækjandi verður að vera EES ríkisborgari til að geta átt rétt á PD A1. Undantekning frá þessari reglu er að finna i Norðurlandasamningnum en hann tekur einnig til þriðja lands ríkisborgara.

Á vegum vinnuveitanda

 • Starfið erlendis skal vera unnið fyrir vinnuveitandann og á kostnað hans. Vinnuveitandinn sem sendir starfsmanninn skal m.a. bera launakostnað starfsmannsins.
 • Starfstímabil má ekki vera lengra en 24 mánuðir.
 • Áætlað starfstímabil í öðru EES landi má ekki vera lengra en 24 mánuðir.

Þessar reglur eiga einnig við um starfsfólk svokallaðra starfsmannaleigufyrirtækja.

PD A1 vottorðið er ekki sjúkratryggingavottorð en til viðbótar við PD A1 vottorði þarf að hafa meðferðis Evrópska sjúkratryggingakortið eða ef búseta er flutt til starfslands PD S1 vottorð sem er útgefið af Sjúkratryggingum Íslands.

16. gr. samninga

Að öllu jöfnu  á einstaklingur sem fer erlendis til starfa að falla undir löggjöf starfslands. Er það meginreglan samkvæmt þeim reglum sem gilda. 

Þó getur viðkomandi óskað eftir að heyra áfram undir íslenskar almannatryggingar og þ.a.l.  vera undanþeginn frá því að falla undir tryggingalöggjöf starfslandsins. Slík undanþága byggist á 16. gr. rg. ESB 883/2004. Í þessum tilvikum gefur Tryggingastofnun ekki út PD A1 vottorð fyrr en samþykki stjórnvalda í starfslandi liggur fyrir.

Sá sem óskar eftir að heyra áfram undir íslenskar almannatryggingar meðan starfað er í öðru EES landi verður að snúa sér til Tryggingastofnunar með umsókn um að gerður verði 16. gr. samningur. Nota má sama eyðublað og fyrir umsókn um PD A1. Umsóknarferlið vegna gerð 16. gr. samninga getur tekið þó nokkurn tíma þar sem skrifa verður þar til bæru stjórnvaldi erlendis.

Síða yfirfarin/breytt 18.11.2015Til baka

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica