Réttindi erlendis

A1 vottorð

Hvað er A1 vottorð?

A1 vottorð segir til um undir hvaða almannatryggingalöggjöf viðkomandi einstaklingur fellur meðan á erlendum starfstíma stendur. A1 vottorð er einungis notað á Evrópska efnahagssvæðinu (EES-svæðinu) og er sönnun þess að starfsmaður falli undir tryggingalöggjöf þess lands sem gefur út vottorðið meðan á starfstíma erlendis stendur.

Sækja þarf um A1 vottorð þegar launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur ætlar að starfa tímabundið á EES-svæðinu. 

Vottorðið er einungis gefið út á launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling.

Greiða þarf  tryggingagjald í útgáfulandi vottorðsins. A1 vottorðið er notað til að koma í veg fyrir tvígreiðslu á tryggingagjaldi. Vottorðið er gefið út fyrir ákveðin starfstímabil sem tilgreint er á vottorðinu.

Meginreglan er sú að almannatryggingalöggjöf starfslandsins gildir og á sú regla við þó svo að einstaklingur sé búsettur í öðru EES-landi. Í ákveðnum tilfellum er þó hægt að sækja um að falla áfram undir almannatryggingalöggjöf í heimalandi sínu. Reglugerð EB 883/2004 ákvarðar hvaða almannatryggingalöggjöf einstaklingur fellur undir og tekur ákvörðunin bæði til réttinda og skyldna samkvæmt þeirri löggjöf sem einstaklingur tilheyrir.

Hvað hefur útgáfa A1 vottorðs í för með sér?

 • Þú þarft að halda áfram að greiða tryggingagjald í útgáfulandi A1 vottorðsins.
 • Þú heldur áfram að falla undir almannatryggingalöggjöf útgáfulands A1 vottorðs.
 • Ef þú hefur fengið A1 vottorð útgefið á Íslandi safnar þú eftirlaunarétti hér á landi sem er skráð í tryggingaskrá hjá Tryggingastofnun. 
 • Þrátt fyrir að vera sjúkratryggður hér á landi er aðstoð til sjúkraþjónustu veitt eftir reglum í starfslandi.

Hvar og hvenær á að sækja um A1 vottorð ?

Sótt er um A1 vottorð hér á tr.is. 

Ef þú ert launþegi sem starfar tímabundið í öðru EES-landi, getur  vinnuveitandi sótt um vottorðið fyrir þína hönd til Tryggingastofnunar. Launþegar sem stunda starfsemi í fleiri en einu EES-landi og sjálfstætt starfandi einstaklingar sækja um vottorðin sjálfir.

Æskilegt er að sækja um A1 vottorð áður en atvinna í öðru EES-landi hefst og er því ávallt betra að vera tímanlega í slíkum umsóknum. Það getur skipt verulegu máli að hafa A1 vottorð meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði rukkað bæði hér á landi og í öðru EES-landi.

A1 vottorðið er ekki sjúkratryggingavottorð en samhliða útgáfu A1 vottorðs þarf að hafa meðferðis Evrópska sjúkratryggingakortið eða ef búseta er flutt til starfslands þá þarf að sækja um S1 vottorð sem er útgefið af Sjúkratryggingum Íslands http://www.sjukra.is

Hvernig nota ég A1 vottorðið?

Vottorðið þarf að  sýna í starfslandi til að að staðfesta stöðu þína um almannatryggingar og til að upplýsa um hvar tryggingagjaldið komi til með að vera greitt.

Hverjir geta sótt um A1 vottorð?

Útsendur starfsmaður:
Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES-landi getur sótt um að falla áfram undir íslensk almannatryggingalög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
TR gefur út vottorð A1 til staðfestingar á því að íslensk almannatryggingalöggjöf gildi áfram á útsendingartíma.
Áætlaður dvalartími má ekki vera lengri en 24 mánuði. Ofangreind skilyrði eiga einnig við um starfsfólk svokallaðra starfsmannaleigufyrirtækja.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar:
Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta sótt um A1 vottorð þegar um sambærilega starfsemi í öðru landi er að ræða og viðkomandi stundar í heimalandi sínu.
Áætlaður dvalartími má ekki vera lengri en 24 mánuði.

Þegar launþegi starfar í fleiri en einu EES-landi: 
Launþegi getur heyrt undir löggjöf búsetulands síns eða þess lands þar sem starfsstöð er skráð eða þar sem starfsemi atvinnurekanda fer fram. 

Starfsmenn Tryggingastofnunar meta skilyrðin hverju sinni.

Þegar sjálfstætt starfandi starfar í fleiri en einu EES-landi:
Launþegi getur heyrt undir löggjöf búsetulands eða í starfslandi.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa einnig að geta sýnt fram á að sú starfsemi sem verður stunduð í öðru EES-landi sé sambærileg þeirri sem stunduð er í heimalandi.

Starfsmenn Tryggingastofnunar meta  skilyrðin hverju sinni.

Opinber starfsmaður
Opinberir starfsmenn sem starfa erlendis falla undir sömu löggjöf og þau stjórnvöld sem þeir starfa fyrir.
Íslenskir embættismenn sem starfa erlendis fyrir íslenska ríkið falla því undir íslenskar almannatryggingar. 

Hvaða atriði koma til skoðunar við útgáfu A1 vottorðs?

 • Hvort búið sé að greiða tryggingagjald á Íslandi.
 • Hvort að vinnusamband haldist út útsendingartíma. Við mat á þessu er tekið tillit til ýmissa atriða, s.s. ábyrgðar á ráðningu og uppsögn, ráðningarsamnings, starfslýsingar o.fl.
 • Að starfsmaður sé undir íslenskri almannatryggingalöggjöf við upphaf útsendingar til að skilyrðinu um samfellda og áframhaldandi tryggingu séu uppfyllt.
  Starfsmaður sem við upphaf ráðningar er þegar búsettur eða starfar í öðru EES-ríki getur því ekki sótt um að falla undir íslenska almannatryggingalöggjöf meðan á erlendum starfstíma stendur.
 • Að starfsmaður hafi verið í starfi hjá vinnuveitanda fyrir upphaf útsendingar.
 • Ef einstaklingur er ráðinn í þeim tilgangi að verða sendur til starfa í öðru EES-landi verður vinnuveitandi að reka umtalsverða starfsemi hér á landi. Við mat á því er tekið tillit til ýmissa atriða, s.s. skráningar starfsemi, fjölda annarra starfsmanna hér á landi, umsvifa o.fl. Starfsmaður má heldur ekki vera sendur út til þess að leysa af áður útsendan starfsmann.
 • Hvort umsækjandi sé EES-ríkisborgari til að geta átt rétt á A1 vottorði. Undantekning frá þessari reglu er að finna i Norðurlandasamningnum en hann tekur einnig til þriðja lands ríkisborgara.
 • Að starfið sé unnið fyrir vinnuveitandann og á kostnað hans innan EES-svæðisins.
 • Að starfstímabil sé ekki lengra en 24 mánuðir.

Af hverju þarf ég A1 vottorð?

A1 vottorð er sönnun þess að þú fallir undir tryggingalöggjöf þess lands sem gefur út vottorðið og þá ber einstaklingnum ekki að greiða tryggingagjald í öðrum EES-löndum. Vottorðið er gefið út fyrir ákveðið starfstímabil og kemur tímabilið fram á vottorðinu.

Þegar einstaklingur ætlar að dvelja erlendis innan EES-svæðisins í atvinnuskyni  til styttri tíma er gott að huga að A1 vottorðinu til að vera áfram tryggður í heimalandi. Sækja þarf um A1 vottorð þegar launþegi eða sjálfstætt einstaklingur tengist í gegnum atvinnu sína fleiru en einu EES-landi (byggist á reglugerðum 883/2004 og 987/2007) og er vottorðið aðeins gefið út á launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling.

Ef um skemmri tíma er að ræða þá getur viðkomandi einstaklingur/sjálfstætt starfandi notað evrópska sjúkratryggingakortið sem sótt er um hjá Sjúkratryggingum Íslands http://www.sjukra.is/.

Get ég fengið A1 vottorð fyrir alla fjölskylduna?

Nei, A1 vottorð er aðeins gefið út á launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling. Í umsókn um A1 vottorð er þó beðið um nafn maka og barna þar sem að Tryggingastofnun áframsendir umsóknina á Sjúkratryggingar ef fjölskylda viðkomandi fylgir með. Tryggingastofnun sækir um svokallað S1 vottorð fyrir umsækjanda.

S1 vottorð er sjúkratryggingavottorð sem gefið er út samhliða A1 vottorði. Norðurlöndin eru þó undanskilin útgáfu S1 vegna þess að almennt fer ekki fram endurgreiðsla á sjúkrakostnaði á milli Norðurlandanna á grundvelli Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

Ef um skemmri tíma er að ræða þá getur viðkomandi einstaklingur/sjálfstætt starfandi notað evrópska sjúkratryggingakortið sem hægt er að sækja um hjá Sjúkratryggingum Íslands http://www.sjukra.is/.

Hversu lengi er hægt að fá A1 vottorð?

Launþegi getur starfað í öðru EES-landi fyrir styttri verkefni þegar hann er útsendur af atvinnurekanda eða er sjálfstætt starfandi. Þá getur dvöl ekki staðið lengur en til tveggja ára til að halda áfram að vera tryggður í fyrra búsetulandi. Eftir það, getur launþegi haldið áfram að starfa erlendis en þá verður hann að skipta um almannatryggingar í því landi sem hann starfar og greiða tryggingagjöld þar. Ef ekki er  áhugi á að skipta um almannatryggingakerfi, verður viðkomandi að snúa tilbaka að starfstímabili loknu í að a.m.k. 2 mánuði.

Ef ljóst er frá upphafi útsendingar að launþegi komi til með að starfa lengur í öðru EES-landi en tvö ár, er hægt að óska eftir frekari undanþágu til að vera áfram tryggður í fyrra búsetulandi. Frekari upplýsingar í „Eru veittar undanþágur varðandi hámarkstímabil í öðru EES-landi?" hér að neðan. 

Eru veittar undanþágur  varðandi hámarkstímabil í öðru EES-landi?

16. gr. samningur

Ef starfstímabil er lengur en tvö ár þá getur viðkomandi óskað eftir að heyra áfram undir íslenskar almannatryggingar og þ.a.l.  vera undanþeginn frá því að falla undir tryggingalöggjöf starfslandsins. Slík undanþága byggist á 16. gr. reglugerðar (EB) 883/2004. Í slíkum tilvikum gefur TR ekki út A1 vottorð fyrr en samþykki stjórnvalda í starfslandi liggur fyrir.

Sá sem óskar eftir að heyra áfram undir íslenskar almannatryggingar meðan starfað er í öðru EES- landi verður að snúa sér til TR með umsókn um að gerður verði 16. gr. samningur. Nota má sama eyðublað og fyrir umsókn um A1. Umsóknarferlið við 16. gr. samninga getur tekið þó nokkurn tíma þar sem skrifa verður þar til bæru stjórnvaldi erlendis. Ferlið getur tekið 4- 8 vikur og mælir því TR með að vera tímanlegur í slíkum umsóknum.

Hver eru EES-löndin?

Evrópska efnahagssvæðið (EES) er sameiginlegt markaðssvæði 31 ríkis í Evrópu sem komið var á með EES-samningnum sem tók formlega gildi 1. janúar 1994.  Aðild að EES eiga öll 28 aðildarríki Evrópusambandsins, sambandið sjálft og 3 aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Evrópska efnahagssvæðið (EES) er innri markaður sem lýtur sameiginlegum grundvallarreglum. Reglunum er ætlað tryggja frjálst vöruflæði, frjálst flæði þjónustu og fjármagns og frjálsa för fólks um allt efnahagssvæðið.

EES-löndin eru eftirfarandi:
Síðast uppfært 21. ágúst 2015

Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland , Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland.

Gildir A1 vottorð fyrir lönd utan EES-svæðisins?

Nei, vottorðið gildir einungis á EES-svæðinu. Hægt er að óska eftir almennri tryggingayfirlýsingu ef um vinnu fyrir utan EES-svæðið er að ræða. Notast er við sömu umsóknareyðublöð um dvöl erlendis í atvinnuskyni.

Hvar á ég að greiða tryggingagjaldið?

Skilyrði fyrir því að fá útgefið A1 vottorð á Íslandi er að viðkomandi greiði tryggingagjald áfram hér á landi á meðan á dvöl erlendis stendur. Tryggingagjaldið er m.a. notað til að fjármagna sjúkra-, slysa- og skyldu lífeyristryggingar.
Innheimta á tryggingagjaldi er í umsjón tollstjórans í Reykjavík og stendur launagreiðandinn í flestum tilvikum skil á því sjálfur en einstaklingurinn getur einnig séð um að greiða það sér í lagi ef hann er að vinna hjá erlendri starfsmannaleigu.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við tollstjóra. 

Hvað ef útsendur starfsmaður er frá öðru EES-landi og starfar á Íslandi?

Launþegi eða atvinnurekandi sækir um A1 vottorð í viðkomandi  tryggingalandi og sendir afrit af því til TR. Gildir einnig um sjálfstætt starfandi einstaklinga og þá sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur. Greiða skal tryggingagjald í samræmi við útgáfuland A1 vottorðs.

Hvað ef útsendur starfsmaður er frá Íslandi en  utan EES-svæðisins?

Launþegi eða atvinnurekandi  sækir um  að fá að halda tryggingum viðkomandi hér á landi þrátt fyrir vinnu utan EES-svæðisins.  Sótt er um á eyðublaðinu Dvöl erlendis  í atvinnuskyni inn á tr.is og fær viðkomandi þá afgreidda almenna tryggingayfirlýsingu. 

Viðkomandi er skráður tryggður í tryggingaskrá þrátt fyrir að viðkomandi er skráður með lögheimili erlendis. 

Hvaða reglur gilda um sjómenn á skipi sem er skráð í öðru EES-landi

Sérreglur gilda um sjómenn. Í flestum tilvikum er það fánaland skipsins sem ræður því hvar viðkomandi er skráður með tryggingar. Undantekning er þó ef viðkomandi þiggur laun af fyrirtæki/einstaklingi sem er með skrifstofu/starfsstöð í öðru aðildarríki, þá fellur viðkomandi undir það aðildarríki þar sem hann hefur fasta búsetu. 

Hvaða reglur gilda um sjómenn er á skipi sem er skráð í utan EES?

Meginreglan er sú að ef einstaklingur er búsettur hér á landi og greitt er tryggingagjald af launum hans hér er hann í tryggingum hér.  Útgefin er almenn tryggingaryfirlýsing.


 

Síða yfirfarin/breytt  31.08.2016

Til baka

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica