Réttindi erlendis

Áhrif búsetu erlendis á lífeyrisréttindi á Íslandi

Tryggingavernd og milliríkjasamningar

Lög um almannatryggingar veita þeim sem búa á Íslandi og uppfylla sett skilyrði ákveðna tryggingavernd. Ef flutt er frá Íslandi gildir sú meginregla að tryggingavernd almannatrygginga fellur niður.

Milliríkjasamningar, t.d. EES samningurinn, geta þó kveðið á um annað þar sem þeim er ætlað tryggja að fólk geti flutt á milli aðildarlanda, svo kallaðra samningslanda, og starfað þar án þess að missa áunnin réttindi. Einnig tryggir Norðurlandasamningur  um almannatryggingar (NLS) réttindi varðandi Færeyjar og Grænland. Þeir einstaklingar sem hafa búið/starfað erlendis hluta af starfsævi sinni geta því átt réttindi erlendis til viðbótar sínum íslenska elli-/örorkulífeyri.

Einungis er heimilt að greiða bætur skv. almannatryggingalögum milli samningslanda en ekki uppbætur skv. lögum um félagslega aðstoð.

Athygli er vakin á því að mismunandi reglur gilda í samningslöndunum og því þarf réttur í einu landi ekki að skapa rétt í öðru landi. 


Ellilífeyrir

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem hafa búið á Íslandi í a.m.k. 3 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Réttur til ellilífeyris miðast við 67 ára aldur. Fullur réttur á Íslandi miðast við 40 ára búsetu á aldrinum 16 – 67 ára. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur er reiknaður út hlutfallslega .

Á grundvelli samninga, t.d. EES samningsins, haldast áunnin réttindi í hverju EES landi þrátt fyrir flutning. Þegar sótt er um ellilífeyri er réttur til greiðslu lífeyris í hlutfalli við tryggingatímabil í hverju landi fyrir sig. Sjá nánar hér.

Hafa þarf í huga að lífeyrisaldur er mismunandi í hinum ýmsu löndum

Fjöldi búsetuára á Íslandi 16 - 67 ára Áunninn réttur Áunninn réttur ef búseta i öðru EES landi + Íslandi ≥ 3 ár (þar af 1 ár á Íslandi að lágmarki)
1 0,0% 2,5%
2 0,0% 5,0%
3 7,5% 7,5%
4 10,0% 10,0%
5 12,5% 12,5%
10 25,0% 25,0%
15 37,5% 37,5%
20 50,0% 50,0%
25 62,5% 62,5%
30 75,0% 75,0%
35 87,5% 87,5%
40 100,0% 100,0%
41-51 100,0% 100,0%

Örorkulífeyrir

Þeir sem hafa verið metnir til a.m.k. 75% örorku, eru á aldrinum 18 til 67 ára og hafa búið á Íslandi a.m.k. 3 síðustu ár fyrir umsókn geta átt rétt á örorkulífeyri frá TR. Fullur réttur miðast við 40 ára búsetu á aldrinum 16 – 67 ára. Réttur þeirra sem búa hér skemur á þessu aldursbili reiknast hlutfallslega.  

Á grundvelli samninga, t.d. EES samningsins, haldast áunnin réttindi í hverju EES landi þrátt fyrir flutning. Þegar sótt er um örorkulífeyri er réttur til greiðslu lífeyris í hlutfalli við tryggingatímabil í hverju samningslandi fyrir sig að því gefnu að viðkomandi hafi fengið örorkumat þar í landi. Sjá nánar hér.

Athygli er vakin á því að örorkumatsviðmið eru mismunandi milli landa og því þarf réttur í einu landi ekki að skapa rétt í öðru landi.


Umsóknir ef búseta hefur verið innan EES /samningslands

Umsækjandi um lífeyri frá öðru EES-landi, norrænu landi eða Sviss, sem búsettur er hér á landi, þarf að snúa sér til Tryggingastofnunar sem annast móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis.

Sótt er um hjá Tryggingastofnun á sérstöku eyðublað i, Umsókn um lífeyri frá öðru EES-ríki TR gefur einnig út leiðbeiningar um hvernig eigi að fylla út þá umsókn. 

Starfsfólk Tryggingastofnunar sendir því næst umsóknina til viðkomandi lands og gildir hún jafnt sem umsókn um greiðslu lífeyris almannatrygginga og um greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Einstaklingur sem er búsettur erlendis og sækir um ellilífeyri hér á landi á að snúa sér til tryggingastofnunar í búsetulandi sínu. Viðkomandi stofnun sér síðan um að senda umsóknina til Tryggingastofnunar á Íslandi.

Sótt um lífeyri til lands sem Ísland hefur gert samning við um lífeyrisréttindi. 

Hefur gert samning

Umsóknir ef búseta hefur verið utan samningslands

Þeir sem hafa verið búsettir utan samningslands þurfa sjálfir að sækja um hugsanlegan rétt sinn erlendis til fyrra búsetulands. Tryggingastofnun annast ekki milligöngu um það. 

Sótt um lífeyri til lands sem Ísland hefur ekki gert samning við um lífeyrisréttindi. 

Hefur ekki gert samning


Útreikningur örorkulífeyris

Reiknireglur við búsetuútreikning örorkulífeyris eru tvenns konar.  Fullur réttur miðast við 40 ára búsetu á aldursbilinu 16 – 67 ára og er rétturinn framreiknaður frá aldri við fyrsta örorkumat fram til 67 ára aldurs.

  EES /EFTA/NLS samningur:

Þegar um búsetu í EES/EFTA/NLS-samningslandi er að ræða skiptist framreikningur lífeyris hlutfallslega á löndin sem um ræðir miðað við búsetu umsækjanda.

Á við um þá sem hafa haft búsetu á EES svæðinu, hvort sem þeir búa nú á Íslandi eða í öðru EES ríki.

  Utan EES:

Ef um búsetu utan EES/EFTA/NLS hefur verið að ræða fellur allur framreikningurinn fram til 67 ára aldurs á Ísland. Þetta á við einstaklinga búsetta á Íslandi en hafa haft búsetu utan EES svæðisins.

Útreikningur vegna búsetu innan EES :

(Tími frá fyrsta örorkumati til 67 ára aldurs × (Búseta á Íslandi til fyrsta örorkumats ÷ Samtals búseta í EES löndum frá 16 ára aldri til fyrsta örorkumats)) + Búseta á Íslandi til örorkumats = Niðurstaða útreiknings á framreikningi fyrir Ísland.

Síðan er deilt með 40 og þá er prósentan komin.

Dæmi 1:

Umsækjandi flytur frá Íslandi til annars EES – lands þegar hann er 21 árs. Eftir 20 ára dvöl erlendis flytur hann til Íslands og er úrskurðaður örorkulífeyrir, þá 41 árs.

Forsendur:

· Búseta á Íslandi frá 16 ára aldri fram að fyrsta örorkumati (21 – 16) =  5 ár

·  Búseta erlendis frá 16 ára aldri fram að fyrsta örorkumati (41 – 21) = 20 ár

·  Samtals búseta í EES – löndum á þessum tíma er þá (5 + 20) = 25 ár

·   Tími frá fyrsta mati til 67 ára aldurs (ellilífeyris) (67 – 41) = 26 ár

·    Ísland greiðir 5/25 hluta í þeim 26 árum sem eftir eru til 67 ára aldurs til viðbótar þeim 5 árum sem viðkomandi bjó á Íslandi frá 16 ára aldri fram að fyrsta örorkumati.

Niðurstaða búsetuútreiknings:

·  Viðmiðunarárafjöldi sem Ísland greiðir reiknast: (26 ár * (5 ár / 25 ár)) + 5 ár = 10,2 ár

Greiðsluhlutfall frá Íslandi verður 10,2/40 = 0,255 eða 25.5%

  Áhrif búsetu - dæmi 1 

Dæmi 2.

Útreikningur fyrir þá sem eru búsettir á Íslandi, en hafa einnig verið búsettir í landi/löndum sem ekki eru samningar við. Forsendur eru þær sömu og í dæmi 1 þ.e. heildarbúsetutími á Íslandi frá 16 ára aldri til fyrsta örorkumats er 5 ár og viðkomandi fær örorkumat 41 árs.

Forsendur:


·   Búseta á Íslandi til fyrsta örorkumats = 5 ár

·    Árafjöldi frá örorku til 67 ára aldurs (67 – 41) = 26 ár

·    Samtals árafjöldi sem reiknast í greiðsluhlutfall Íslands (5 + 26) = 31 ár

Í þessu tilviki reiknast árafjöldinn frá örorku til 67 ára aldurs að fullu inn í greiðsluhlutfall Íslands.

Greiðsluhlutfall reiknast: 31/40 = 0,775 eða 77,5%

Áhrif búsetu - dæmi 2

Síðan yfirfarin/breytt 20.09.2017

 

Til baka

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica