Bifreiðamál barna

Framfærendur hreyfihamlaðra barna geta sótt um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna. Hægt er að sækja um uppbót og styrk til bifreiðakaupa á 5 ára fresti. Framfærendur barna sem fá styrk skuldbinda sig til þess að eiga bíl í 5 ár.

Með umsókn þarf að skila inn hreyfihömlunarvottorði frá lækni en ef vottorð liggur fyrir hjá TR er nóg að vísa til þess.

TR er heimilt að óska eftir áliti Sjúkratrygginga Íslands á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið.

Uppbót vegna kaupa á bifreið

Heimilt að veita uppbót til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna.  

Að jafnaði er ekki veittur styrkur vegna fatlaðra barna yngri en tíu ára. Í sérstökum tilfellum er heimilt að veita styrk vegna mikið fatlaðra barna yngri en tíu ára ef barnið þarf sannarlega sambærilega bifreið og fullorðinn einstaklingur í sambærilegri aðstöðu. Í þeim tilvikum skal m.a. horft sérstaklega til eðlis fötlunar barnsins, hvort að það sé óvenju hávaxið og/eða þungt miðað við aldur og hvort að barnið er óvenju háð fyrirferðarmiklum hjálpartækjum á meðan að það er í bifreiðinni.

Styrkur vegna kaupa á bifreið

Heimilt er að veita styrk að fjárhæð 1.440.000 kr. til að kaupa bifreið sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Þá er heimilt að veita styrk til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt nánari skilyrðum:

  • Umsækjandi þarf að vera hreyfihamlaður, nota hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri
  • Umsækjandi þarf að vera sjúkratryggður hér á landi

Niðurfelling bifreiðagjalda

TR staðfestir rétt lífeyrisþega á niðurfellingu eða leiðréttingu bifreiðagjalda en RSK sér um að vinna málið. Hægt er að skila inn beiðni til TR rafrænt eða á sérstöku eyðublaði en beiðnin er svo send áfram til RSK til vinnslu.