Til að eiga rétt á heimilisuppbót verður lífeyrisþegi að vera einhleypur og búa einn eða með börnum sínum undir 18 ára aldri. Undantekning er á þessu en mögulegt er að fá heimilisuppbót ef ungmenni á aldrinum 18-25 ára sem er í námi eða starfsþjálfun býr á heimilinu. Skila þarf inn skólavottorði fyrir ungmennið með umsókninni. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða.
Heimilisuppbótin fellur niður ef:
- Viðkomandi býr ekki lengur einn (fyrir utan börn undir 18 ára eða börn á aldrinum 18-25 ára í námi/starfsþjálfun)
- Flutt er úr landi
- Flutt er í annað húsnæði en þá þarf að sækja um aftur
- Leigusamningur rennur út en þá þarf að sækja um aftur og skila afriti af nýjum leigusamning
- Ef heildartekjur fara yfir viðmiðunarmörk
- Ef tekjutrygging lífeyrisþega fellur niður
Ekki er réttur á heimilisuppbót ef lífeyrisþegi:
- Nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga
- Nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, nema heimilismaður sé á aldrinum 18-25 ára og er í námi eða starfsþjálfun, þá telst umsækjandi ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann
- Nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum, nema heimilismaður sé á aldrinum 18-25 ára og er í námi eða starfsþjálfun, þá telst umsækjandi ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann
Skila þarf inn afriti af húsaleigusamningi ef umsækjandi býr í leiguhúsnæði.