Fagaðilar

Leiðbeiningar fyrir fagaðila:

Sótt er um endurhæfingarlífeyri með því að fylla út umsókn á Mínum síðum, með umsókn þarf að fylgja læknisvottorð, endurhæfingaráætlun og tekjuáætlun sem hægt er að skila á Mínum síðum.

Endurhæfingaráætlun

Endurhæfingaráætlun er alltaf gerð í samvinnu við meðferðaraðila/ráðgjafa, t.d. ráðgjafa VIRK, starfsendurhæfingarstöðva, lækna, sjúkraþjálfara eða starfsfólk heilsugæslu/ heilbrigðisstofnana eða félagsþjónustu. 

Áætlunin er gerð og undirrituð af umsækjanda og þeim meðferðaraðila/ráðgjafa sem heldur utan um endurhæfinguna og veitir stuðning og eftirfylgd.

Í endurhæfingaráætlun þurfa að koma fram upplýsingar um langtíma- og skammtímamarkmið endurhæfingar, ásamt greinargóðri lýsingu á innihaldi hennar. Mikilvægt er að starfshæfni sé alltaf höfð að leiðarljósi í endurhæfingu og endurhæfingaráætlun því byggð upp með áherslu á endurkomu á vinnumarkað.

Eyðublað - endurhæfingaráætlun

Leiðbeiningar við útfyllingu

1.    Nafn þátttakanda og kennitala.

2.    Hér þarf að koma fram langatíma- og skammtíma markmið með endurhæfingunni. Endurhæfing þarf alltaf að miða að endurkomu á vinnumarkað.

3.    Þegar sótt er um endurhæfingarlífeyri í fyrsta skipti þarf alltaf að koma fram í greinargerð vandi einstaklings, félagssaga, atvinnu- og námssaga, fyrri endurhæfing og fyrirhuguð endurkoma á vinnumarkað.

  • Ef þörf er á framlengingu endurhæfingarlífeyris þarf nýja endurhæfingaráætlun frá meðferðaraðila/ráðgjafa. Í endurhæfingaráætluninni þarf að koma fram hvernig endurhæfing á því endurhæfingartímabili sem er að ljúka hafi gengið og hvort fyrri áætlun hafi staðist eins og lagt var upp með í upphafi. Ef endurhæfing hefur ekki gengið samkvæmt áætlun þurfa að koma fram nánari útskýringar á ástæðum þess og/eða hvort aðstæður umsækjanda hafi breyst.

4.    Í endurhæfingaráætlun þurfa að koma fram upplýsingar um endurhæfingarúrræði. Sú endurhæfing sem lagt er upp með í áætlun þarf alltaf að vera vegna þess heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni. 

Endurhæfingaráætlunin þarf að byggja á eftirfarandi upplýsingum: 

  • Greinargóðri lýsingu á innihaldi endurhæfingar.
  • Hve oft í viku/mánuði lögð er stund á endurhæfingarúrræði sem lagt er upp með í áætlun og  hvaða fagaðilar eru að taka á vanda umsækjanda.
  • Nám eða vinnuprófun getur eingöngu verið hluti af endurhæfingu samhliða því að verið er að vinna með heilsufarsvanda. Ef nám eða vinna/vinnuprófun er hluti endurhæfingar þarf að skila staðfestingu frá skóla um einingafjölda náms eða frá atvinnurekanda um starfshlutfall. 

5.    Endurhæfingartímabil þarf alltaf að taka mið af tímalengd endurhæfingarúrræða.

6.    Hvenær gert er ráð fyrir endurkomu á vinnumarkað, að hluta eða fullu.

Ef endurhæfingunni er ekki sinnt í samræmi við fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun eða umsækjandi hættir í endurhæfingu skal meðferðaraðili/ráðgjafi láta TR vita og er endurhæfingarlífeyrir þá stöðvaður.