Ýmis réttindi eða uppbætur geta fylgt endurhæfingarlífeyri. Þessar greiðslur eru þó allflestar háðar ákveðnum skilyrðum, t.d. varðandi tekjur, búsetu og heimilisaðstæður.
Barnalífeyrir
Lífeyrisþegar geta átt rétt á barnalífeyri ef þeir eru með börn undir 18 ára á framfæri sínu eða greiða meðlag með þeim. Greiðsla barnalífeyris er háð því að annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft hafi búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.
- Barnalífeyrir greiðist foreldrum eða þeim sem annast framfærslu barnanna
- Barnalífeyrir er 35.565 kr. á mánuði með hverju barni
- Foreldri sem afplánar dóm getur fengið barnalífeyri ef vistun hefur varað að minnsta kosti þrjá mánuði
Heimilisuppbót
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót verður umsækjandi að vera einhleypur og búa einn. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða. Tvær undantekningar eru á þessu en mögulegt er að fá heimilisuppbót ef:
- Einstaklingur á aldrinum 18-20 ára sem er í námi eða starfsþjálfun býr á heimilinu. Skila þarf inn skólavottorði fyrir ungmennið með umsókninni
- Einstaklingur á aldrinum 20-25 ára stundar nám fjarri skráðu lögheimili sínu. Skila þarf inn staðfestingu á því að ungmennið búi tímabundið annars staðar, svo sem skólavottorð
Heimilisuppbótin er tekjutengd og fellur niður ef heildartekjur fara yfir viðmiðunarmörk.
Heimilisuppbótin fellur einnig niður ef:
- Viðkomandi býr ekki lengur einn
- Flutt er úr landi
- Flutt í annað húsnæði en þá þarf að sækja um aftur
Skila þarf inn afriti af húsaleigusamningi ef umsækjandi býr í leiguhúsnæði.
Uppbót á lífeyri
Uppbót á lífeyri er heimilt að greiða vegna:
- Umönnunarkostnaðar
- Lyfjakostnaðar
- Kaupa á heyrnartækjum
- Húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta
- Dvalar á sambýli/áfangaheimili
- Rafmagnskostnaðar vegna notkunar á súrefnissíu
Upphæð uppbóta er reiknuð út frá tekjum og kostnaði. Uppbætur eru skattfrjálsar og tekjutengdar.
Uppbætur eru tekjutengdar og falla niður ef heildartekjur eru yfir 252.676 kr. á mánuði eða ef eignir í peningum eða verðbréfum fara yfir 4.000.000 kr. á einstakling.