Ellilífeyrir

 

Hverjir eiga rétt á ellilífeyri?

Þeir sem eru 67 ára og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár á aldrinum 16-67 ára eiga einhvern rétt á ellilífeyri. 

Full réttindi eru þegar búseta hefur verið 40 ár samtals á tímabilinu 16 - 67 ára. Búsetan þarf ekki að vera samfelld. Ef búsetan er minni en 40 ár eru réttindi reiknuð út hlutfallslega eftir búsetu. Dæmi: þeir sem hafa búið 30 ár á Íslandi samtals á tímabilinu 16 - 67 ára eru með 75% rétt o.s.frv.  

Hverjir eiga rétt á heimilisuppbót?

Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri, eru einhleypir og búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót. Ef lífeyrisþegi er ekki í eigin húsnæði þarf að skila inn húsaleigusamningi. 

Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða. 

Er hægt að fresta töku ellilífeyris

Hægt er að fresta tökum ellilífeyris til allt að 72 ára aldurs. Við það hækkar ellilífeyrir og heimilisuppbót um 0,5% á mánuði að hámarki um 30%.

Frá 1.janúar 2018 geta þeir sem eru fæddir árið 1952 eða síðar frestað töku ellilífeyris til 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun sem mun byggjast á tryggingafræðilegum grunni. 

Skila þarf umsókn þegar hefja á töku lífeyris. Við umsókn fellur réttur til frestunar niður. 

Umþóttunartími:  Hægt er að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir. Ef greiðsla hefur átt sér stað þarf að endurgreiða að fullu ef umsókn er dregin til baka.
Afturköllun hefur þá ekki áhrif á rétt til hækkunar lífeyris.

Er hægt að flýta töku ellilífeyris?

Þeir sem eru 65 ára geta sótt um ellilífeyri gegn varanlegri lækkun á greiðslum. Lækkunin mun byggjast á tryggingafræðilegum grunni á árinu 2018 mun hún nema 0,5% fyrir hvern mánuð. 

Skilyrði er að umsækjandi sæki einnig um hjá öllum lífeyrissjóðum sem hann á rétt hjá og samanlagðar réttur hjá TR og frá lífeyrissjóðum sé að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri hjá TR kr. 248.105 á mánuði.  

Umþóttunartími:  Hægt er að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir. Ef greiðsla hefur átt sér stað þarf að endurgreiða TR að fullu ef umsókn er dregin til baka.

Gilda sérreglur um sjómenn? 

Sá sem hefur stundað sjómennsku á lögskráðu íslensku skipi eða skipi gert út af íslenskum aðilum í 25 ár eða lengur getur átt rétt á ellilífeyri frá 60 ára aldri. 

Ellilífeyri sjómanna greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir sem greiðist frá 67 ára aldri og breyttist því með sama hætti um áramótin 2016-2017. 

Er hægt að taka saman lífeyri frá TR og lífeyri frá lífeyrissjóðum ásamt atvinnuþátttöku? 

Frá 1.janúar 2018 verður hægt að taka 1/2 lífeyri hjá TR og 1/2 lífeyri hjá lífeyrissjóðum ásamt atvinnuþátttöku. Tekjur munu ekki hafa áhrif á greiðslur hálfs lífeyris frá TR. Hækkun verður á frestaðan hluta ellilífeyris eftir 67 ára aldur en lækkun á þann hluta sem tekinn er til 67 ára aldurs.  

Skilyrði er að samanlagðar greiðslur frá TR og lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum séu að lágmarki jöfn fullum ellilífeyri hjá TR. 

Upplýsingar um hálfan ellilífeyri hjá TR og lífeyrissjóðum

Hvernig sæki ég um ellilífeyri og hvað þarf að fylgja með umsókninni?

Hægt er að sækja um ellilífeyri á Mínum síðum en einnig er hægt að nálgast öll eyðublöð á tr.is undir eyðublöð .  

Með umsókn þarf að fylgja: 

 • Staðfesting á að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði.
 • Tekjuáætlun, hægt að skila af Mínum síðum.
 • Upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar hjá TR, hægt að gera á  Mínum síðum

Get ég dregið umsóknina um ellilífeyri til baka?

Hægt er að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir.

Þannig getur fólk metið hvort það vill byrja að fá greiðslur frá TR eða njóta frestunar og fá þá hækkun á greiðslur. 

Ef greiðsla hefur átt sér stað þarf að endurgreiða TR að fullu ef umsókn er dregin til baka.

Tilkynnt er um afturköllun umsóknar á Mínum síðum, undir „Umsóknir“.

Fara á Mínar síður

Af hverju þarf að skila tekjuáætlun?

Tekjuáætlun er það sem greiðslur eru reiknaðar út frá. Réttindi hjá TR eru  tekjutengd og skila þarf tekjuáætlun um leið og sótt er um greiðslur.

Einfalt og öruggt er að gera tekjuáætlun á Mínum síðum. Eftir að tekjuáætlun hefur verið breytt er hægt að fá bráðabirgðaútreikning á Mínum síðum. Einnig er hægt að skila tekjuáætlun á pappír hjá TR eða umboðum TR um land allt.

Ef tekjur breytast er nauðsynlegt að láta TR vita með því að breyta tekjuáætluninni. Þá eru greiðslur reiknaðar upp á nýtt, frá þeim tíma sem nýja tekjuáætlun berst til TR.

Hvernig fer fram uppgjör og endurreikningur á greiðslum?

Endurreikningur á greiðslum fer fram einu sinni á ári þegar tekjur frá fyrra ári liggja fyrir í staðfestu skattframtali.

Í endurreikningi er gerður samanburður á síðustu tekjuáætlun sem greiðslur voru reiknaðar út frá og tekjum samkvæmt skattframtali.

Ef tekjur hafa verið vanáætlaðar í tekjuáætlun myndast krafa við endurreikning greiðslna og ef tekjur hafa verið ofáætlaðar í tekjuáætlun myndast inneign.

Endurreikningur tryggir að allir fá rétt greitt frá TR. 

Hvenær falla réttindi til ellilífeyris niður?

 • Ellilífeyrir er tekjutengdur,  greiðslur falla niður ef samanlagðar heildartekjur fara yfir kr. 557.187 á mánuði árið 2018.
 • Ef flutt er erlendis til landa utan EES.
 • Við andllát.
 • Þegar dvalið er á sjúkrahúsi 180 daga eða lengur á síðustu 12 mánuðum en þó þarf viðkomandi að hafa dvalið samfellt á sjúkrahúsi í 30 daga í lok tímabilsins.
 • Þegar viðkomandi fær vistunarmat og fer á hjúkrunarheimili falla greiðslur niður 1. næsta mánaðar.

 Hvaða réttindi geta fylgt ellilífeyri?

Sækja þarf um öll réttindi sem fylgt geta ellilífeyri en þau eru: 

 • Heimilisuppbót. 
 • Uppbót á lífeyri (vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar, umönnunar, dvalar á sambýli, rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíu, heyrnartækja og húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta).
 • Uppbót vegna reksturs bifreiðar.
 • Niðurfelling bifreiðagjalds á fólksbifreið.
 • Maka- eða umönnunarbætur.
 • Mæðra- eða feðralaun.
 • Barnalífeyrir

Þurfa þeir sem er með örorkulífeyri að sækja um ellilífeyri?

Ekki þarf að sækja um ellilífeyri ef einstaklingur er með örorkulífeyri nema óskað sé eftir að nýta sér frestun á töku ellilífeyris. Þá fær viðkomandi hvorki örorku- né ellilífeyri greiddan frá TR á frestunartímanum.

Hvenær fæ ég greitt?

Þegar einstaklingur er orðinn 67 ára og sækir um á hann rétt fyrsta dag næsta mánaðar eftir að sótt er um. Greitt er fyrirfram þann fyrsta hvers mánaðar. 

Get ég sótt um afturvirkar greiðslur?

Mögulegt er að sækja um afturvirkar greiðslur en þá er ekki hægt að nýta sér hækkun vegna frestunar á töku ellilífeyris fyrir sama tíma.

Get ég fengið greitt einu sinni á ári?

Hægt er að óska eftir að fá greitt einu sinni á ári. Þá eru réttindin reiknuð út þegar staðfest skattframtal liggur fyrir og eru greidd út í einu lagi. Með því að fá greitt einu sinni á ári fær viðkomandi nákvæmlega það sem hann á rétt á og losnar til dæmis við að fá  á sig kröfu við uppgjör vegna ofgreiddra greiðslna.  

Hverjir eiga rétt á heimilisuppbót?

Þeir sem búa einir og eru einir um heimilisrekstur geta sótt um heimilisuppbót. Ef lífeyrisþegi er ekki í eigin húsnæði þarf að skila inn húsaleigusamningi. 

Sótt er um heimilisuppbót á Mínum síðum eða á umsóknareyðublaði um ellilífeyri. 

Heimilisuppbót fellur niður:

 • Þegar viðkomandi býr ekki lengur einn.
 • Þegar tekjutrygging lífeyrisþega fellur niður.
 • Þegar viðkomandi flytur úr landi.
 • Þegar viðkomandi skiptir um húsnæði.

Hverjir geta sótt um maka- og umönnunarbætur?

Ef maki eða aðili með sama lögheimili er að annast lífeyrisþega er hægt að sækja um maka-/umönnunarbætur. Ekki er hægt að greiða aðilum maka-/umönnunarbætur sem eru með lífeyrisgreiðslur frá TR.

Maka-/umönnunarbótum er ætlað að bæta tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls umönnunaraðila þegar lífeyrisþegi þarf umönnun við daglegt líf.

Hvaða gögn þurfa að fylgja með umsókn um maka-/umönnunarbætur?

 • Læknisvottorð sem tilgreinir umönnunarþörf lífeyrisþega við daglegt líf.
 • Staðfesting um lækkað starfshlutfall eða starfslok umönnunaraðila.
 • Launaseðla þrjá síðustu mánuði fyrir dagsetningu umsóknar.
 • Ef um lækkun á endurreiknuðu endurgjaldi er að ræða þarf staðfestingu frá RSK.
 • Staðfesting frá RSK um tekjuleysi ef það á við. Dagsetning þarf að vera sú sama og á umsókninni.
 • Staðfest skattframtal umsækjanda. 

Hverjar eru viðmiðunartekjur fyrir maka-/umönnunarbætur?

Ef mánaðarlegar heildartekjur umsækjenda eru hærri en sú fjárhæð þegar réttindi hjá Tryggingastofnun falla niður er ekki hægt að fá maka-/umönnunarbætur. Það sama á við ef peningalegar eignir eru hærri 4 milljónir. 

Upplýsingablað um útreikning lífeyris og tengdra greiðslna.

Síða yfirfarin/breytt 17.01.2019

Til baka

Ellilífeyrir

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica