Hvernig er umsókn metin?

Reglur við mat á aðstoð.

Það eru tilgreint í lögum frá Alþingi hverjir eiga að fá aðstoð og hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til að fá aðstoðina.

  • 4. grein laga um félagslega aðstoð (nr. 99/2007) er búið að tilgreina hver fær aðstoð og hve háa aðstoð er heimilt að veita.
  • Reglugerð nr. 504/1997 útlistar enn skýrar hvaða vinnubrögð á að viðhafa til að ákveða aðstoðina og nánar hvaða skilyrði þarf að uppfylla svo foreldrar fái aðstoð.

Skil á fullnægjandi gögnum.

Þegar fullnægjandi gögn hafa borist er gert svokallað umönnunarmat. Umsókn og læknisvottorð þurfa alltaf að berast – annars er ekki gert umönnunarmat. Sérstaklega er bent á að skila þarf skýrum upplýsingum um meðferð barna og senda með staðfestingu á útlögðum kostnaði vegna meðferðar barna (kvittanir fyrir kostnaði).

Enn fremur þarf að berast tillaga frá félagsþjónustu sveitarfélags ef um er að ræða barn með fötlun.

Flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda.

Í 5. grein reglugerðarinnar eru settir fram ákveðnir flokkar sem byggjast á erfiðleikum barns (fötlun/sjúkdóm), gæslu og þeim útgjöldum sem fallið hafa til vegna barnsins. Annars vegar er flokkun vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir (tafla 1) og hins vegar flokkun vegna barna með langvinn veikindi (tafla 2).

Síðan þarf að ákveða greiðslustig, það er 25%, 35% og framvegis, í samræmi við þá töflu sem er í 5. grein reglugerðarinnar. Til dæmis þarf að meta hvort barn í 1. flokki falli undir 100% greiðslur, falli undir 50% greiðslur (t.d. umtalsverð vistun utan heimilis) eða falli alveg niður.

Á þessum forsendum þarf að meta eftirfarandi:

  1. Hvaða erfiðleika barn er að glíma við?
  2. Hvaða gæsla, umönnun og meðferð er í gangi á hverjum tíma?
  3. Hver er staðfestur útlagður kostnaður hjá foreldrum vegna barnsins?

Lengd umönnunarmats.

Vegna þess að þarfir barna, umönnun, erfiðleikar og útlagður kostnaður vegna barnanna er mismunandi, og getur breyst frá einum mánuði til annars, er ekki alltaf hægt að gera umönnunarmat til langs tíma. Flest umönnunarmöt vegna barna með fötlun eru þriggja til fimm ára í senn en í einstaka tilvikum getur reynst nauðsynlegt að gera styttri möt.

Þegar til staðar eru mjög íþyngjandi aðstæður (miklir erfiðleikar, umönnun, innlagnir á sjúkrahús og kostnaður) geta umönnunargreiðslur verið tímabundið hærri. Slíka aukna aðstoð getur þurft að veita til skemmri tíma og gera síðar endurmat á aðstæðum barns.

Niðurstaða umönnunarmats.

Tryggingastofnun ákveður með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og lagafyrirmælum hvaða flokkur og greiðslustig eiga við í hverju tilviki. Í framhaldi er gengið frá bréfi (úrskurði) sem foreldrum er sent. Þannig getur verið um að ræða:

  1. Aukin þátttaka í lækniskostnaði – þá er foreldrum veitt umönnunarkort.
  2. Umönnunargreiðslur – skattlausar mánaðarlegar greiðslur til foreldra.

Ábending vegna umönnunarmats.

Umönnunargreiðslur eru ekki einungis veittar vegna ákveðins sjúkdóms eða fötlunar heldur er þetta fjárhagsleg aðstoð sem byggist á fleiri þáttum. Til dæmis er nauðsynlegt að hækka greiðslur ef veikindi eru alvarleg og foreldrar algjörlega bundnir yfir barni sínu. Eins ber að greiða lægri greiðslur þegar barn getur verið í almennri þjónustu og hefur ekki miklar sérþarfir. Til dæmis má benda á að börn með sömu fötlun eða sjúkdómsgreiningu geta verið afskaplega ólík í umönnun og því mismikil þörf á  fjárhagslegri aðstoð til foreldra.

Breyttar aðstæður og endurmat.

Mikilvægt er að veitt aðstoð sé í samræmi við aðstæður barns og fjölskyldu á hverjum tíma. Við breytingar á veikindum barns, umönnunarþunga, innlagna á spítala og aðrar slíkar aðstæður getur verið nauðsynlegt að sækja um endurmat á gildandi umönnunarmati. Við endurmat á umönnunargreiðslum þarf umsókn frá foreldri, læknisvottorð og kvittanir fyrir útlögðum kostnaði. 

Síða yfirfarin/breytt 04.12.2015

Til baka

Barnafjölskyldur

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica