Tilhögun greiðslna


 • Greiðslur skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barn greindist með sjúkdóm/fötlun.
 • Þak er á tekjutengdum greiðslum.
 • Greiðslurnar geta varað  í allt að 6 mánuði.
 • Greinist barn að nýju eftir að foreldri hefur lokið 6 mánaða tímabili á tekjutengdum greiðslum getur foreldri átt rétt að nýju.
 • Við útreikning á greiðslum til sjálfstætt starfandi foreldris skal miða við tekjuárið (almanaksár) á undan greiningarári.
 • Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- eða slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns. Þegar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns er að ræða skal miða við þær viðmiðunartekjur sem þessir aðilar notuðu í sínum útreikningum.
 • Útreikningar á  greiðslum skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun aflar um tekjur foreldris úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.
 • Aldrei skal miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðallaunum.
 • Greiðslur til foreldris geta hafist frá og með þeim degi er fullar launagreiðslur frá vinnuveitenda og frá sjúkra-/styrktarsjóði stéttarfélags vegna veikinda eða fötlunar barns falla niður.
 • Foreldri getur  óskað eftir því að greiðslur hefjist síðar.
 • Greitt er eftir á 1. virka dag mánaðar fyrir undangengin mánuð.
 • Foreldri greiðir að lágmarki 4% í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiðir 8% mótframlag.
 • Foreldri getur óskað eftir að greiða í séreignarsjóð og stéttarfélag. 

Foreldragreiðslur eru sameiginlegur réttur foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Foreldrar ráða hvernig þeir skipta réttinum milli sín enda fullnægi báðir skilyrðum laganna en eiga ekki rétt á greiðslum á sama tíma fyrir sama tímabil.

Undantekning er þegar barn nýtur líknandi meðferðar og foreldrar hafa ekki nýtt sér rétt sinn að fullu.

Andist langveikt eða alvarlega fatlað barn er heimilt að halda tekjutengdum greiðslum sem foreldri hefði ella átt rétt á áfram í allt að einn mánuð frá andláti barns enda sé því tímabili sem framkvæmdaraðili hafði áður ákveðið ekki lokið.

Þegar tekjutengdar greiðslur reynast lægri en almenn fjárhagsaðstoð getur foreldri fengið þær greiðslur án þess að sækja um þær sérstaklega ef öðrum skilyrðum fyrir almennri fjárhagsaðstoð er uppfyllt. Af grunngreiðslum er ekki greitt í lífeyrissjóð og stéttarfélag.

Greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

 • Ef foreldri hefur lagt niður störf að hluta vegna veikinda barns getur verið til staðar réttur til  hlutfallsgreiðslna í samræmi við minnkað starfshlutfall. Ennfremur getur skapast réttur til hlutfallsgreiðslna ef foreldri kemur aftur til starfa í lægra starfshlutfall en áður. Skilyrði er að lægra starfshlutfall megi rekja til þeirra bráða aðstæðna sem komu upp þegar barn þess greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.
 • Skilyrði fyrir greiðslum samhliða minnkuðu starfshlutfalli er að foreldri hafi lagt niður störf og/eða verið í minnkuðu starfshlutfalli samfellt lengur en í fjórtán virka daga og að breyting á starfshlutfalli hafi varað í tvær vikur eða lengur.
 • Heimilt að lengja greiðslutímabilið sem þessu nemur.

Frádráttur vegna tekna og annarra greiðslna.

Greiðslur frá vinnuveitanda eða öðrum aðilum til foreldris fyrir sama tímabil, sem eru hærri en nemur mismun greiðslna og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar.  Umönnunargreiðslur koma þó ekki til frádráttar.

Heimilt er að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris.

Með umsókn þarf að fylgja:

 • Vottorð sérfræðings sem veitir barninu þjónustu þar sem fram kemur greining, meðferð, umönnunarþörf barns og aðstæður.
 • Staðfesting vinnuveitanda um að foreldri hafi lagt niður störf og fullar launagreiðslur hafi fallið niður. Fram þurfa að koma upplýsingar um starfstímabil og starfshlutfall umsækjanda. Ef um sjálfstætt starfandi einstakling er að ræða þarf að skila inn staðfestingu á breyttu tryggingagjaldi.
 • Staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að foreldri hafi fullnýtt sér áunnin réttindi
 • Staðfesting frá fæðingarorlofssjóði um að greiðslum sé lokið (ef við á)
 • Staðfesting um mætingar barnsins á leikskóla/skóla (ef við á)
Síða yfirfarin/breytt 13.03.2013
Til baka

Barnafjölskyldur

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica