Réttindi við andlát maka

 • Við andlát maka breytast forsendur greiðslna frá Tryggingastofnun að einhverju leyti og hugsanlega kann réttur til heimilisuppbótar að myndast. 

Ef eftirlifandi maki er lífeyrisþegi þarf hann að senda inn nýja tekjuáætlun og greina Tryggingastofnun frá breytingum á tekjum sínum. Eftirlifandi maki þarf að gera nýja tekjuáætlun og sækja um heimilisuppbót (ef hann býr einn). Hægt er að gera nýja tekjuáætlun og sækja um heimilisuppbót á Mínum síðum. 

Dánarbætur

Dánarbætur greiðast þeim sem eiga lögheimili hér á landi og verða ekkja/ekkill innan 67 ára aldurs. Skilyrði er að viðkomandi hafi verið í hjúskap við hinn látna eða í skráðri, óvígðri sambúð í eitt ár eða lengur við andlátið.

Fólk í skráðri sambúð sem ekki hefur varað í eitt ár getur átt rétt á dánarbótum hafi það átt barn saman. Sami réttur skapast ef konan er barnshafandi þegar sambýlismaður hennar andast.

Dánarbætur greiðast í sex mánuði þeim sem verða ekkjur/ekklar innan 67 ára aldurs. Þær eru greiddar áfram eftir að viðtakandi er orðinn 67 ára, ef réttur til bótanna hefur skapast fyrir 67 ára aldur.

Sjómenn sem hefja töku lífeyris 60-70 ára eiga ekki rétt á dánarbótum.

Dánarbætur eru greiddar án tillits til allra annarra bóta en dánarbóta vegna bótaskylds slyss sem greiddar eru í átta ár eftir andlát maka og eru ekki tekjutengdar.

Framlenging dánarbóta

Ef eftirlifandi maki er með barn undir 18 ára aldri á framfæri sínu fær hann framlengdar dánarbætur í 12 mánuði til viðbótar sex mánaða dánarbótum án sérstakrar umsóknar. Ef fjárhags- og félagslegar aðstæður eftirlifandi maka eru mjög slæmar getur hann sótt um framlengingu dánarbóta. Framlengdar dánarbætur eru afgreiddar í 12 mánuði í senn. Heimilt er að framlengja greiðslu dánarbóta að hámarki í 48 mánuði samtals frá því að greiðslu sex mánaða dánarbóta lauk.

Sex mánaða dánarbætur falla niður:

 • Við andlát ekkju/ekkils
 • Við flutning úr landi
 • Við hjúskap
 • Þegar ekkja/ekkill fær greiddan ellilífeyri sjómanna (60 - 67 ára) eða átta ára slysabætur

Framlengdar dánarbætur falla niður:

 • Við andlát ekkju/ekkils.
 • Við flutning úr landi.
 • Við 67 ára aldur ekkju/ekkils en þá er hægt að sækja um ellilífeyri.
 • Þegar ekkja/ekkill fær greiddan ellilífeyri sjómanna (60 - 67 ára), eða átta ára slysabætur.
 • Þegar ekkja/ekkill er ekki lengur með a.m.k. eitt barn undir 18 ára aldri á framfæri sínu, nema við eigi skilyrðið um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður.
 • Þegar ekkja/ekkill gengur í hjónaband eða skráir sig í sambúð. Við sambúð falla bætur niður ári síðar.

Að sækja um dánarbætur
Ef sótt er um framlengdar dánarbætur þarf að skila gögnum um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður.

Hægt er að sækja um dánarbætur og framlengdar dánarbætur á Mínum síðum.   
Einnig má sækja um á eyðublaði sem nálgast má hér.

Barnalífeyrir
Ef eftirlifandi maki er með börn á framfæri getur verið til staðar réttur á barnalífeyri vegna andláts maka. Sjá nánari upplýsingar hér. 

Mæðra- og feðralaun
Ef eftirlifandi maki er með tvö eða fleiri börn sín á framfæri getur hann sótt um mæðra/feðralaun. Hægt er að sækja um þau um leið og sótt er um dánarbætur. Sjá nánari upplýsingar hér. 
Hægt að sækja mæðra- feðralaun á  Mínum síðum.

Önnur réttindi
Ekkill eða ekkja getur nýtt sér skattkort maka í átta mánuði eftir andlát hans. Hægt er að sækja um lækkun tekju- og eignaskatts. Nánari upplýsingar er að finna á vef ríkisskattstjóra.

Eftirlifandi maki getur sótt um lækkun á tekjuskattstofni hjá ríkisskattstjóra.

Eftirlifandi maki getur einnig átt rétt á fyrirgreiðslu hjá stéttarfélögum, stuðningi frá félagsþjónustu sveitarfélaga eða tryggingafélögum.


Síða yfirfarin/breytt 09.03.2017

Til baka

Almenn réttindi

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica