Til aðstandenda lífeyrisþega sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili

  • Flutningur á heimili 

Þegar lífeyrisþegi hefur fengið samþykkt færni- og heilsumat og flytur á dvalar- eða hjúkrunarrými falla niður bætur frá Tryggingastofnun frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir flutning. Ef viðkomandi er með lágar eða engar tekjur þá getur hann átt rétt á ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun. 


Þátttaka í dvalargjaldi

Frá þeim tíma sem greiðslur frá Tryggingastofnun falla niður getur lífeyrisþegi  þurft að taka þátt í að greiða fyrir að búa á heimilinu en það ræðst af tekjum hans sem fram koma á tekjuáætlun. Tryggingastofnun reiknar út þátttökugjaldið en heimilið sér um innheimtuna. 

Umboðsmaður

Hafi lífeyrisþeginn ekki verið með skráðan umboðsmann hjá Tryggingastofnun er mikilvægt að aðstandendur meti hvort ekki sé rétt að einhver þeirra taki það að sér. Umboðsmaður fær send til sín bréf viðkomandi frá Tryggingastofnun.   Þetta umboð veitir ekki aðgang að Mínum síðum- Tryggingastofnunar á vefnum.

Mínar siður - þjónustuvefur Tryggingastofnunar

Á Mínar síður má nálgast m.a. bréf og greiðsluskjöl frá Tryggingastofnun. Þar er m.a. hægt að breyta tekjuáætlun. Til að komast inn á Mínar síður þarf Íslykil frá Þjóðskrá eða rafræn skilríki á debetkortum frá bönkum. 

Lífeyrisþegi getur veitt öðrum aðila umboð til að sinna sínum málum á Mínum síðum með því að fara inn á þjónustuvefinn með sínum Íslykli og veitt viðkomandi aðila umboð. Hægt er að gefa fleiri en einum aðila umboð. Sá sem fær umboð notar síðan sinn Íslykil til að komast á  Mínar síður . Ef Íslykil vantar er einfaldast að óska eftir að fá nýjan sendan í heimabanka eða með hefðbundnum pósti og berst hann þá á lögheimili umsækjanda.

Andlát

Við andlát tekur dánarbúið við öllum réttindum og skyldum hins látna. Endurreikningur vegna greiðslna frá Tryggingastofnun og þátttöku í dvalargjaldi á dvalarrými á sér stað þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir eða í ágúst ár hvert fyrir undangengið ár.

Tekjuáætlun

Tekjuáætlun er áætlun umsækjanda um eigin tekjur á árinu, s.s. launa-, lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur. Á grundvelli hennar eru greiðslur ársins reiknaðar. Umsækjandi ber alfarið ábyrgð á að tekjuáætlun sé rétt.
Greiðslur eru endurreiknaðar árlega á grundvelli skattframtals. Inneignir eru greiddar út og skuldir innheimtar.
Mikilvægt að tilkynna um breytingar sem verða á tekjum en það er einfaldast að gera á vefnum.

Framlenging bóta

Ef sérstaklega stendur á hjá einstaklingi sem flytur á dvalar-/hjúkrunarheimili er í undantekningartilfellum heimilt að framlengja greiðslu bóta. Sækja þarf um framlengingu sérstaklega og við afgreiðslu umsóknar er sérstaklega litið til þess hvort framlenging sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar vegna húsnæðis.

Dagpeningar utan stofnunar

Heimilt er að greiða dagpeninga utan stofnunar fyrir hvern sólarhring sem íbúi dvelst utan stofnunar án þess að útskrifast. Til að eiga rétt á dagpeningum utan stofnunar þarf umsækjandi að hafa átt rétt á lífeyri/vasapeningum frá Tryggingastofnun. Greitt er að hámarki fyrir 8 sólarhringa í mánuði. Heimili/stofnun sækir um fyrir hönd íbúa.  


Síða yfirfarin/breytt 02.02.2016

Til baka

Ellilífeyrir

Var efnið hjálplegt? Nei


TR er umhugað um persónuvernd.
Kynntu þér stefnuna okkar hér.

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica