Að flýta töku ellilífeyris

Almennt myndast réttur á ellilífeyri við 67 ára aldur. Hægt er að hefja töku ellilífeyris fyrr eða frá 65 ára aldri en við það lækka greiðslur ellilífeyris varanlega. Heimildin er bundin því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um greiðslu lífeyris frá öllum lífeyrissjóðum sem umsækjandi á rétt hjá.

Varanleg lækkun er reiknuð út frá tryggingafræðilegum grunni. Til dæmis ef töku ellilífeyris er flýtt um 24 mánuði nemur lækkunin 12,24% sem þýðir að réttur til greiðslna er 87,76%.

Sama gildir um greiðslur heimilisuppbótar en þeir sem eru einhleypir og búa einir geta átt rétt á henni.

Hægt er að skoða hvernig það kemur út að flýta töku ellilífeyris í reiknivélinni hér.

Fylgiskjöl með umsókn

Með umsókn þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

  • Yfirliti úr Lífeyrisgátt yfir alla lífeyrissjóði sem þú hefur áunnið þér réttindi í.
    • Til að nálgast yfirlitið ferðu á heimasíðu hjá þeim lífeyrissjóði sem þú greiðir í núna eða hefur greitt í. Skráir þig svo inn á sjóðfélagavef þinn með rafrænum skilríkjum.
  • Staðfestingu þar sem fram kemur frá og með hvaða tíma greiðslur hefjast, frá þeim lífeyrisjóðum sem fram koma á yfirliti úr Lífeyrisgátt. Ef þú hefur almennt ekki áunnið þér réttindi í lífeyrissjóði, þá þarf að framvísa staðfestingu þess efnis.
  • Tekjuáætlun þar sem fram koma áætlaðar atvinnu-, lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur, eftir því sem við á.

Hægt er að skila inn öllum gögnum í gegnum Mínar síður.